Viðskipti innlent

Tölvukerfi héraðsdóms liggur niðri

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Aðalmeðferð í markaðsmisnotkunarmáli sem halda átti áfram klukkan 9 í morgun var frestað um klukkutíma.
Aðalmeðferð í markaðsmisnotkunarmáli sem halda átti áfram klukkan 9 í morgun var frestað um klukkutíma. vísir/gva
Aðalmeðferð í markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings sem halda átti áfram klukkan 9 í morgun hefur verið frestað um klukkutíma vegna þess að tölvukerfi Héraðsdóms Reykjavíkur liggur niðri.

Ekki er hægt að komast inn í málaskrá og þá er hvorki hægt að taka upp né komast inn í tölvupósta eða á netið.

Óljóst er hversu langan tíma það mun taka að koma tölvukerfinu í lag og var þinghaldi því frestað til klukkan 10.

Hreiðar og Sigurður hafa ekki látið sjá sig

Níu fyrrverandi starfsmenn og stjórnendur Kaupþings eru ákærðir í málinu fyrir allsherjarmarkaðsmisnotkun og umboðssvik á ellefu mánaða tímabili fyrir hrun.

Í seinustu viku lauk skýrslutökum yfir tveimur verðbréfasölum sem störfuðu hjá eigin viðskiptum bankans, þeim Pétri Kristni Guðmarssyni og Birni Sæ Björnssyni. Þeir eru sakaðir um að hafa keypt mikið af hlutabréfum í bankanum með það að augnamiði að halda verði bréfanna uppi.

Eiga þeir að hafa gert þetta að undirlagi yfirmanna sinna, meðal annars þeirra Einars Pálma Sigmundssonar, forstöðumanns eigin viðskipta Kaupþings, og Ingólfs Helgasonar, forstjóra Kaupþings á Íslandi. Báðir eru ákærðir í málinu og átti skýrslutaka yfir Einari Pálma að hefjast í morgun.

Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings-samstæðunnar, Sigurður Einarsson, sem var stjórnarformaður bankans og Magnús Guðmundsson, forstjóri Kaupþings í Lúxemborg eru ákærðir fyrir aðild sína að málinu.

Þeir afplána nú sem kunnugt er fangelsisdóma vegna Al Thani-málsins og hefur lítið sést til þeirra í héraðsdómi á meðan aðalmeðferðin hefur staðið yfir. Magnús leit við í klukkutíma síðastliðinn föstudag í fylgd fangavarða en Hreiðar og Sigurður hafa ekkert látið sjá sig.

Að auki eru Bjarki H. Diego, sem var framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Kaupþings, og Björk Þórarinsdóttir, sem sat í lánanefnd bankans og starfaði á fyrirtækjasviði ákærð.

Uppfært klukkan 10:05

Tölvukerfið komst aftur í lag og aðalmeðferð hófst að nýju klukkan 10.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×