Nýtt íslenskt leikjafyrirtæki, Sólfar Studios, lauk í dag hlutafjáraukningu með þátttöku breiðs hóps erlendra og innlendra fjárfesta. Á meðal þeirra sem leggja til hlutafé er fjárfestingafélagið Investa, sem fjárfestir í íslenskum sprotafyrirtækjum, og Vilhjálmur Þorsteinsson. Vilhjálmur og Hilmar Gunnarsson frá Investa hafa tekið sæti í stjórn Sólfars.
Um helmingur hlutafjáraukningar Sólfars kemur frá erlendum fjárfestum í Finnlandi, Bandaríkjunum og Bretlandi. Þeirra á meðal er finnski sprotasjóðurinn Sisu Game Ventures, fagfjárfestirinn Ville Miettenen sem hefur komið að stofnun fjölmargra hugbúnaðarfyrirtækja í Finnlandi og Isaac Kato, meðstofnandi og fjármálastjóri Verne Global.
Stofnendur Sólfars eru Reynir Harðarson, Kjartan Pierre Emilsson og Þorsteinn Högni Gunnarsson en þeir hafa allir unnið í tölvuleikja og hugbúnaðargeiranum í liðlega 20 ár. Nú síðast hjá CCP þar sem þeir voru í stjórendahóp til margra ára. Reynir var einnig á meðal stofnenda.
Sólfar einbeitir sér alfarið að þróun og útgáfu leikja og upplifana fyrir sýndarveruleikabúnað á borð við Oculus Rift frá Facebook og Project Morpheus frá Sony, en þessi tól eru væntanleg á markað á komandi ári. Félagið stefnir að markaðssetningu sinna fyrstu verkefna samhliða útgáfu þessa búnaðar, en sýndarveruleiki eða „virtual reality“ er markaður sem margir horfa til sem stærsta vaxtarbrodds tölvuleikjageirans næstu árin.
