Tveimur erlendum ferðamönnum er nú haldið sofandi á gjörgæslu Landspítalans eftir bílslys við Hellissand í morgun. Samkvæmt upplýsingum frá spítalanum gengust þeir undir skurðagerðir í dag og eru mjög alvarlega slasaðir.
Ferðamennirnir voru fluttir frá Snæfellsnesi með þyrlu Landhelgisgæslunnar eftir að hafa lent í bílslysi með fjórum öðrum ferðamönnum í morgun. Beita þurfti klippum til að ná þeim úr bílnum.
Þrír voru fluttir suður með þyrlunni en þrír aðrir voru fluttir á Heilsugæslustöðina í Ólafsvík í fyrstu. Sá þriðji sem fluttur var suður var í skárra ástandi en hinir og gekk hann úr þyrlunni þegar hún lenti í Reykjavík.
Sneiðmyndatæki Landspítalans stöðvaðist í tuttugu mínútur í dag og varð töf á meðferð ferðamannanna. Sneiðmyndatækið er notað til að meta stöðu sjúklinga svo hægt sé að bregðast rétt við. Í þessu tilfelli var ekki hægt að hefja skurðaðgerð á ferðamönnunum tveimur fyrr en tækið var aftur komið í lag.
