Allt þetta og ýmislegt annað merkilegt kemur til skoðunnar í Bílskúrnum, uppgjöri hvers kappaksturs hér á Vísi.

Lewis Hamilton var allt að því örugglega að fara að vinna í Mónakó þegar hann tók þjónustuhlé. Þjónustuhléið var örlagaríkt, hann tapaði fyrsta sætinu til liðsfélaga síns, Nico Rosberg.
Gleði Hamilton með þriðja sætið var nákvæmlega engin og Bretinn var staðráðinn í að koma til baka í Kanada. Munurinn í stigakeppni ökumanna var orðinn einungis 10 stig Hamilton í vil. Mercedes bað hann afsökunnar og svo kom í ljós að Hamilton átti sjálfur stóan þátt í að þjónustuhléið örlagaríka átti sér stað.
Blaðamannafundurinn á fimmtudaginn sem leið varð allur sá vandræðalegasti þegar Hamilton tilkynnti að hann myndi ekki tjá sig um atburði síðustu keppni.
Meistarinn mætir svo á brautina í Montreal og á föstudaginn smellir hann Benzinum á varnarvegg í rigningu, ekki góð byrjun. Laugardagurinn byrjar ekki betur en Hamilton náði einungis níu hringjum á loka æfingunni fyrir tímatökuna.
Mórallinn hjá Hamilton var ekki hár fyrir tímatökuna en þrátt fyrir allt sýndi hann og sannaði að hann kann að keyra. Hamilton náði ráspól frekar auðveldlega, Rosberg veitti ekki mikla viðspyrnu. Keppnin sjálf var svo frekar róleg, Hamilton sparaði eldsneyti en Rosberg bremsur. Engin sérstök barátta skapaðist á milli þeirra og allir fóru sáttir heim.
Hamilton var snúinn aftur til vinnandi vegar. Vonandi er ekki allur vindur úr Rosberg. Vonandi helst spennan áfram í keppni ökumanna og vonandi tekst Hamilton ekki að stinga af.

Rafall í bíl Vettel gaf sig í tímatökunni og hann datt út í fyrstu lotu. Hann var svo kallaður á teppið fyrir að taka fram úr meðan rauðum flöggum var veifað á æfingu fyrr um daginn.
Vettel ræsti 15. en endaði fimmti. Vettel sýndi þeim sem hafa efast um hæfni hans til að taka fram úr í tvo heimana um helgina. Þvílíkir taktar, allir hans heimsmeistaratitlar skynu í gegn í keppninni.
Vettel gat samt sjálfum sér um kennt að hafa komið sér í þessa stöðu. Hann á að vita betur eftir fjóra heimsmeistaratitla og 146 keppnir en að taka fram úr meðan rauðum flöggum er veifað. Algjör byrjendamistök, svo meira sé ekki sagt um það.

Finnland státar af því að eiga flesta heimsmeistara í Formúlu 1 miðað við höfðatölu. Tölfræðitækni sem Íslendingar kannast vel við.
Finnsku ökumennirnir sem nú aka í Formúlu 1 háðu harða hildi í keppninni. Valtteri Bottas hafði að lokum betur gegn Kimi Raikkonen. Bottas varð þriðji og Raikkonen fjórði.
Eftir talsverðan eltingarleik gerði Raikkonen mistök sem kostuðu hann þriðja sætið. Skyndilegt innskot afls gerði það að verkum að Ferrari bíll Finnans snerist í næst síðustu beygju brautarinnar. Þetta var nett endursýning frá því í fyrra þegar sambærilegt aflinnskot sneri finnska ökumanninum á sama stað.
Yngri Finninn hafði betur og náði verðlaunasæti og varð fyrsti ökumaðurinn til þess í ár sem ekki ekur Mercedes eða Ferrari bíl. Hann er þó títt nefndur sem líklegur arftaki landa síns hjá Ferrari, jafnvel á næsta ári.

Lotus átti loksins von á hrúgu af stigum og allt gekk vel framan af en svo sprengdi Romain Grosjean dekk á bíl sínum meðan hann var að hringa Will Stevens á Manor.
Grosjean hefur oft í gegnum tíðina tekist að skemma talsvert fyrir sjálfum sér. Hann hefur þó tekist að halda sig að mestu fyrir sig undanfarið og lítið verið í því að rekast á aðra fyrir eigin tilstilli. Franski ökumaðurinn reyndi of snemma að ná aftur keppnislínunni á brautinni. Raunar reyndi hann það áður en hann var alveg komin fram úr Stevens, með fyrrnefndum afleiðingum.

Aldrei þessu vant er líklegast rétt að velja þann sem vann. Hamilton hélt haus alla keppnina þrátt fyrir ýmislegt sem á undan hafði gengið.
Dramað í Mónakó, vandræðalegur blaðamannafundur, vandræðaleg æfing á föstudaginn og slök æfing á laugardag bitu ekki á Bretanum.
Hamilton ók gríðarlega vel í tímatökunni og það sama má segja um keppnina. Erfið byrjun en fullkominn endir á helginni hjá heimsmeistaranum sem sýndi úr hverju hann er gerður í Kanada.