„Það þarf að koma hér fram, herra forseti, að Seðlabankinn tilgreindi sérstaklega sem ástæðu fyrir nauðsyn þessarar lagasetningar hér í kvöld eða nótt leka í DV sem varð á föstudagsmorguninn var þegar þar var slegið upp að í vændum væri frumvarp um 40% stöðugleikaskatt á eignir fallinna fjármálafyrirtækja,“ sagði Steingrímur í ræðustól á Alþingi.
Steingrímur bætti enn fremur við að hann vildi að forsætisráðherra útskýrði fyrir þingheimi hvernig það gæti gerst að út úr hinu lokaða ferli til undirbúnings frumvarpa um afnám gjaldeyrishafta skuli koma skaðlegur leki af því tagi beint í gegnum nafngreindan blaðamann DV og á forsíðu þess blaðs.
Sjá einnig: Búist við kynningu á 40 prósenta stöðugleikaskatti í ríkisstjórn
Er hann svaraði andsvari Össurar Skarphéðinssonar, þingmanns Samfylkingarnar, upplýsti Steingrímur um að Már Guðmundsson, Seðlabankastjóri, hafi sagt umfjöllunina vera ástæðu þess að frumvarpið var flutt með svo skömmum fyrirvara.
Össur Skarphéðinsson tjáði sig einnig um málið á Facebook. Össuri var tíðrætt um það í pontu í gærkvöld að þetta væri í fyrsta skipti frá lýðveldisstofnun sem Alþingi er kallað til þingfundar á sunnudagskvöldi.
„Innsti hringurinn míglekur raunar, því viðskiptaritstjóri DV hefur allajafna meiri upplýsingar en almennir ráðherrar um stöðuna – og miklu meiri en nokkur þingmaður.Gera menn sér grein fyrir hvað þetta þýðir? – Í miðju framkvæmdavaldsins er trúnaður brotinn. Upplýsingum, sem geta skaðað stöðu Íslands gagnvart kröfuhöfum er lekið,“ skrifar Össur meðal annars á vefinn.
Ritstjórinn segir þessi orð sérstök og furðar sig á þeim orðum þingmannanna að réttast væri að láta rannsaka frétt DV. Frétt blaðsins sé aðeins enn eitt púslið í viðamilli umfjöllun blaðsins um gjaldeyrishöftin.