Force India ætlar að kynna nýjan bíl þessa helgi á Silverstone brautinni í Bretlandi. Liðið er fullt tilhlökkunar samkvæmt Vijay Mallya, liðsstjóra Force India.
Liðið hóf tímabilið með ögn uppfærðan bíl frá fyrra ári vegna fjárhagsöruleika. Þróunin hefur verið lítil og spennan innan liðsins því mikil. Liðið situr þrátt fyrir allt í fimmta sæti í keppni bílasmiða.
„Við komum til Silverstone eftir tvær góðar keppnir, tvö góð úrslit sem hafa gefið liðinu mikið sjálfstraust,“ sagði Mallya.
„Nú þegar tímabilið er næstum hálfnað er frábært að vera í fimmta sæti, sérstaklega þegar byrjun tímabilsins er skoðuð hjá okkur,“ sagði Mallya.
„Allir eru fullir tilhlökkunar, en við vitum að það er margt að læra og skilja við þrufum að ná tökum á bílnum. Það verður erfitt í fáum æfingum. Ég er þó vongóður um að sjá framfarir fljótlega,“ sagði Mallya að lokum.

