Innlent

Gleðin við völd í Gleðigöngunni

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
„Ég fékk smá í magann í morgun þegar ég vaknaði og sá dropana því veðrið hefur alltaf einhver áhrif,“ segir Eva María Þórarinsdóttir Lange formaður Hinsegin daga en gleðigangan fór fram í dag.

Árið í fyrra var algert metár en þá gengu um hundraðþúsund manns fylktu liði um götur borgarinnar. Í ár voru eilítið færri í bænum. „Allt fór rosalega vel fram og ekkert fyllerísvesen. Ég hugsa að það hafi verið svipað margir og árið 2013. Kannski svona um sjötíu til áttatíuþúsund en það er náttúrulega slump,“ segir Eva María.

Eva María gekk fremst í göngunni ásamt öðrum skipuleggjendum Hinsegin daga. „Það var ólýsanlegt að ganga um og hvert sem maður leit tóku brosandi andlit á móti manni. Ég hef oft verið áhorfandi en þetta var öðruvísi upplifun.“

Hinsegin dagar hófust á þriðjudag og renna sitt skeið á morgun þó hápunkti þeirra hafi verið náð í dag. „Það er ball í kvöld og verður dögurður í fyrramálið. Fólk er sennilega heima hjá sér núna að setja örlítið meira glimmer á sig áður en það skemmtir sér í kvöld,“ segir Eva að lokum.

Hér að neðan er hægt að sjá myndir sem Andri Marinó Karlsson og Egill Aðalsteinsson tóku í göngunni.

vísir/egill

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×