Gróttukonan Fanney Hauksdóttir varð í dag Evrópumeistari í bekkpressu á í 63 kílóa opnum flokki á Evrópumótinu í bekkpressu sem fram fer í Pilsen í Tékklandi. Hún bætti eigið heimsmet og vann gull á fyrsta móti sínu í fullorðinsflokki.
Fanney vann ekki aðeins gullið í flokki fullorðinna heldur bætti hún einnig heimsmet unglinga sem hún átti sjálf síðan á HM unglinga fyrr á þessu ári.
Fanney, sem er ríkjandi heimsmeistari unglinga og heimsmethafi keppti nú á sínu fyrsta móti í flokki fullorðinna en lét það ekki trufla sig og sigraði með því að lyfta 147,5 kílóum sem er jafnframt nýtt heimsmet unglinga. Fyrir átti hún heimsmetið, 145,5 kíló.
Fanney byrjaði með örugga lyftu, 142,5 kíló. Hún reyndi síðan við 147,5 kíló í annarri lyftu en rétt missti hana. Í þriðju og síðustu lyftu flaug stöngin hinsvegar örugglega upp og þar með var nýtt heimsmet og Evrópumeistaratitill í höfn.
Þessi árangur hennar er einkar glæsilegur og sýnir og sannar að Fanney er án efa meðal bestu bekkpressara í heiminum í dag.

