Yfirmaður kappakstursmála hjá vélaframleiðandanum Honda segir að endurkoman í Formúlu 1 hafi ekki gengið sem skyldi.
Yashuisa Arai, yfirmaður kappakstursmála hjá Honda segir að nú muni sjá til sólar. Honda ætlar að nota þrá uppfærsluskammta fyrir belgíska kappaksturinn. Honda á þá ónotaða fjóra uppfærsluskammta.
„Það er ekkert frí hjá okkur nema eitthvað óvænt komi upp í verksmiðjunni. Við vinnum áfram hörðum höndum að þróun,“ sagði Arai.
„Við vonum að uppfærslan skili okkur 15 hestöflum. Það er lítið skref í langri baráttu við að ná Mercedes,“ bætti Arai við. Hann þvertók fyrir að uppfærslan myndi skila 50 hestafla aukningu eins og orðrómur hafði verið á kreiki um.
Honda var síðast með í Formúlu 1 í lok níunda og upphaf tíunda áratugs síðustu aldar. McLaren-Honda var þá liðið sem önnur lið miðuðu sig við.
Aria viðurkennir að flækjustig við hönnun nýju vélarinnar hafi verið meira en Honda reiknaði með.
„Ég er þess fullviss að við erum á réttri leið. Við urðum að skapa eitthvað róttækt til að ógna liðunum á toppnum, enda er það endanlegt markmið, að vera á toppnum,“ sagði Arai að lokum.
McLaren hefur best komið bíl í fimmta sæti á tímabilinu, Fernando Alonso náði þeim árangri í Ungverjalandi. Liðið er í níunda sæti í keppni bílasmiða með 17 stig. Einungis Manor liðið er með færri stig en Manor er stigalaust í tíunda sæti. Sauber er í áttunda sæti með 22 stig.

