"Allur svona stuðningur skiptir miklu máli og við erum afar þakklátir ríkisstjórninni fyrir þennan stuðning," segir Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, en það var stór dagur hjá Körfuknattleikssambandinu í gær.
Þá var tilkynnt hvaða tólf leikmenn munu verja heiður Íslands á fyrsta stórmótinu sem körfuboltalandsliðið kemst á. Ísland mun hefja leik á EM í Berlín þann 5. september. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra mætti á fundinn og tilkynnti um styrk frá ríkisstjórninni til KKÍ vegna verkefnisins.
"Þetta er líka viðurkenning fyrir það starf sem við höfum verið að vinna á undanförnum árum. Sigmundur hefur orðið var við á ferðum sínum erlendis að menn eru að tala um þennan árangur körfuboltaliðsins og annan íþróttaárangur Íslendinga. Ég held að stjórnvöld séu farin að átta sig á því hversu mikil landkynning íþróttafólkið okkar er."
Styrkur ríkisstjórnarinnar er upp á 7,5 milljónir króna en er þá búið að brúa bilið og ljóst að KKÍ kemur ekki út í tapi á þessu verkefni sem kostar um 40 milljónir króna?
"Ég hugsa að við töpum ekki peningum á þessu ári en það er ekki alveg búið að brúa bilið. Þetta fer langleiðina með að brúa bilið fyrir þetta verkefni."
Hannes er einn fárra í íþróttahreyfingunni sem hefur verið óhræddur við að gagnrýna stjórnvöld fyrir lítinn stuðning við íþróttahreyfinguna. Hann var loksins bænheyrður í gær. Að einhverju leyti hið minnsta.
"Ég er mjög ánægður að sjá þennan stuðning í dag en þetta er það sem ég vil sjá almennt í íþróttahreyfingunni. Eins og forsætisráðherra talaði um þá er þetta eitthvað sem hann vonast til að geta gert áfram á næstu árum. Ég vona að við eigum eftir að sjá enn frekari stuðning við okkur og íþróttahreyfinguna á komandi árum," segir Hannes en trúir hann því að forsætisráðherra muni standa við orð sín á fundinum á næstu árum?
"Eigum við ekki að segja það. Þetta er góður dagur og þá á maður að vera jákvæður. Ég treysti því."
Fyrir utan þessar 7,5 milljónir króna frá ríkisvaldinu þá hefur hreyfing sem kallar sig Körfuboltafjölskylduna safnað 6 milljónum króna. Afrekssjóður ÍSÍ styrkti verkefnið um 12 milljónir króna og einnig koma peningar frá samstarfsaðilum. Þeir eru margir sem vilja KKÍ og landsliðinu vel í aðdraganda mótsins.
"Körfuboltafjölskyldan er ekki hætt og það er frábært. Þessi stuðningur mun vonandi koma til með að vera á næstu árum hjá okkur sem er frábært. Það eru góðir tímar fram undan í íslenskum körfubolta. FIBA Europe og Eurobasket taka þátt í hluta að hótelkostnaði okkar í Berlín. Ég verð að viðurkenna að ég var að vonast eftir meiri stuðningi þar enda eru miklir peningar í evrópskum körfubolta. Þeir lofa meiri stuðningi árið 2017 og við verðum þá að koma okkur bara á það mót," sagði formaðurinn brosmildur.
Það eru góðir tímar fram undan í íslenskum körfubolta

Tengdar fréttir

Þessir sex berjast um þrjú sæti í Berlínarhópnum
Fréttablaðið skoðaði spilatíma leikmanna í æfingaleikjunum fyrir Evrópumótið í körfubolta til að gera sér betur grein fyrir því hvaða tólf leikmenn verða í fyrsta stórmótahópi Íslands sem verður tilkynntur í dag.

Jón Arnór: Ég er vel gíraður
Það var kominn fiðringur í Jón Arnór Stefánsson er EM-hópurinn í körfubolta var kynntur í KR-heimilinu í dag.

Ríkisstjórnin styrkir körfuboltalandsliðið
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra var óvænt mættur á fund KKÍ í dag þar sem EM-hópurinn var tilkynntur.

EM-hópurinn klár | Brynjar, Sigurður Ágúst og Sigurður Gunnar sitja eftir
Tólf manna EM-hópur er klár