Íslenski boltinn

Leikmaður Hattar látinn fara vegna kynþáttafordóma

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ægismenn eftir sigurinn á Hetti.
Ægismenn eftir sigurinn á Hetti. mynd/heimasíða ægis
Búlgaríski sóknarmaðurinn Georgi Stefanov hefur verið látinn fara frá Hetti á Egilsstöðum vegna kynþóttafordóma sem hann var með í garð Brentons Muhammed, markmanns Ægis.

Austurfrétt greinir frá þessu og vitnar í yfirlýsingu frá Hetti rekstrarfélagi.

Atvikið átti sér stað í leik Hattar og Ægis á Vilhjálmsvelli í 17. umferð 2. deildar karla á laugardaginn. Ægismenn unnu leikinn með tveimur mörkum gegn engu.

Austurfrétt greindi fyrst frá því að Stefanov hafi í tvígang kallað Muhammed apa. Kynþáttafordómarnir fóru framhjá dómaratríóinu og áhorfendum en leikmenn og varamenn liðanna urðu þeirra varir.

Er fram kemur í yfirlýsingunni hefur Stefanov játað brot sitt og veit upp á sig skömmina. Og sökum alvarleika brotsins hefur verið ákveðið að láta Stefanov fara frá Hetti en hann kom til liðsins í félagaskiptaglugganum í júlí.

Yfirlýsingu Hattar rekstrarfélags má lesa í heild sinni hér að neðan.

Stjórn Hattar rekstrarfélags ehf sem fer með rekstur meistararflokka félagsins í knattspyrnu harmar mjög atvik sem átti sér stað í leik Hattar og Ægis s.l. laugardag þar sem Georgi Stefanov leikmaður Hattar veittist að Brenton Muhammad leikmanni Ægis með niðrandi ummælum. Ummæli sem verða ekki skilin öðruvísi en kynþáttafordómar í garð Brenton.

Stjórnarmenn félagsins hafa rætt málið við viðkomandi leikmann sem hefur gengist við broti sínu. Leikmaðurinn er miður sín vegna framgöngu sinnar og veit að hann hefur engar málsbætur. Hann vill koma á framfæri afsökunarbeiðini sinni til Brenton.

Stjórn Hattar rekstrarfélags ehf biður Brenton Muhammad, leikmenn Ægis og aðstandendur félagsins innilega afsökunar á umræddu atviki. Einnig vil stjórnin biðja stuðningsmenn Hattar og stuðningsaðila afsökunar.

Frá því að Georgi Stefanov gekk til liðs við Hött hefur hann staðið sig mjög vel innan vallar sem utan og engan skugga borið á hans framkomu. Hann er mjög miður sín fyrir framferði sínu gagnvart Brenton. Það verður hins vegar ekki horft framhjá alvarleika brotsins og því hefur stjórn Hattar rekstrarfélags ehf ákveðið að Georgi Stefanov spili ekki fleiri leiki með félaginu.

Virðingarfyllst,

Stjórn Hattar rekstrarfélags ehf


Tengdar fréttir

Leikmaður Hattar ásakaður um kynþáttarfordóma

Georgi Stefanov, leikmaður Hattar, er sakaður um að hafa verið með kynþáttafordóma í garð Brenton Muhammad, markvarðar Ægis, en liðin mættust í annari deild karla á Egilsstöðum í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×