Íslenski boltinn

Leikmaður Hattar ásakaður um kynþáttarfordóma

Anton Ingi Leifsson skrifar
Leikmenn Ægis eftir sigurinn á Egilsstöðum í dag.
Leikmenn Ægis eftir sigurinn á Egilsstöðum í dag. vísir/heimasíða ægis
Georgi Stefanov, leikmaður Hattar, er sakaður um að hafa verið með kynþáttafordóma í garð Brenton Muhammad, markvarðar Ægis, en liðin mættust í annari deild karla á Egilsstöðum í dag.

Austurfrétt greinir frá þessu á vef sínum, en þar er sagt að Georgi hafi tvisvar sinnum kallað markvörð Ægis apa. Þetta er talið hafa gerst á svipaðan hátt í tvigang og varamenn Ægis sem hituðu upp hliðina á markinu létu vel í sér heyra.

Á vef Austurfréttar kemur fram að ummælin hafi ekki heyrst upp í stúku, en eftir leikinn labbaði Brenton til Stefanov og tók í höndina á honum. Leikmenn Hattar báðu svo Ægismenn afsökunar.

„Við munum ekki sætta okkur við svona vitleysu. Við stöndum ekki fyrir eitthvað svona. Einhver svona rasismi er alls ekki líðandi og þó að stærri klúbbar úti í heimi standi með sínum mönnum í gegnum súrt og sætt munum við ekki líða eitthvað svona,“ sagði Gunnlaugur í samtali við Austurfrétt.

Stefanov gekk í raðir Hattar í júli-glugganum, en þetta var hans þriðji leikur fyrir félagið. Óvíst er hvort KSÍ muni aðhafast í málinu og hver framtíð Stefanov verður hjá Hetti.

Ægir vann leikinn 2-0, en þeir Ramon Torrijos Anton og Aron Ingi Davíðsson skoruðu mörk Ægis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×