Íslenski boltinn

Í sjöunda himni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Davíð Þór Viðarsson býr sig undir að lyfta Íslandsbikarnum.
Davíð Þór Viðarsson býr sig undir að lyfta Íslandsbikarnum. vísir/þórdís
„Mig óraði ekki fyrir þessu, ég held að engan hafi órað fyrir þessu,“ sagði Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, skömmu eftir að  Íslandsbikarinn fór á loft, aðspurður hvort hann hafi dreymt um þetta þegar hann gekk í raðir FH, sem var þá í 1. deild, árið 2000.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá, en nú, fimmtán árum síðar, er FH sjö Íslandsmeistaratitlum ríkari. Þeir hafa allir unnist á síðustu tólf árum en FH hefur ekki endað neðar en í 2. sæti síðan 2003.

„FH er frábært félag og hefur gert margt fyrir mig og ég vona að ég hafi gefið því eitthvað á móti,“ sagði Heimir enn fremur eftir leik. Fáir mótmæla því að hann hafi átt stærstan þátt í þessum ótrúlega uppgangi Fimleikafélagsins á þessari öld.

Heimir lyfti tveimur fyrstu Íslandsbikurunum sem FH hlaut sem fyrirliði liðsins. Eftir að hann lagði skóna á hilluna 2005 lærði hann handtökin í þjálfun hjá Ólafi Jóhannessyni áður en hann tók sjálfur við liðinu 2007.

Sem aðalþjálfari hefur Heimir skilað fjórum Íslandsmeistaratitlum í hús en enginn þjálfari hefur unnið fleiri meistaratitla síðan keppni í tíu liða deild hófst árið 1977.

fréttablaðið



Fleiri fréttir

Sjá meira


×