Mercedes liðið var aftur á toppnum. Martraðirnar virðast hafa verið bundnar við Sinpapúr brautina og mjúku dekkin sem þar voru í boði. Í Japan eru hörð og meðal hörð dekk notuð.
Ökumaður á ráspól hefur unnið keppnina í 12 tilfellum af síðustu 26. Það er nóg af stöðum á Suzuka til að taka fram úr.
Gulum flöggum var veifað undir lok fyrstu lotu vegna Toro Rosso bíls Max Verstappen sem nam staðar á brautinni. Hann missti afl og gat ekkert gert til að reyna að lífga bílinn við.
Manor og Sauber liðin duttu út í fyrstu lotu ásamt Jenson Button á McLaren. „Við verðum að vera með öll grunnatriði á hreinu, við höfum ekki efni á öðru,“ sagði Button á leiðinni inn á þjónustusvæðið. Hann hafði ekki fengið upplýsingar um hvaða stillingu hann átti að setja vélina á.

Baráttan um ráspól í þriðju lotu var engra annarra en Mercedes manna. Rosberg hafði verið fljótastur í annarri lotu en Hamilton í þeirri fyrstu. Vandræðin í Singapúr voru augljóslega skilin eftir á flugvellinum þar.
Daniil Kvyat lenti í ógnvænlegu atviki þegar tæpar tvær mínútur voru eftir af lotunni. Hann fór aðeins út á grasið og missti algjörlega stjórn á bílnum.
Afleiðingar þess voru að fyrri tilraun í þriðju lotu réði úrslitum um ráspól. Rosberg var 0,076 á undan Hamilton sem gerði smá mistök í sinni fyrstu tilraun.
Hér fyrir neðan má finna öll helstu úrslit helgarinnar, þau uppfærast eftir því sem líður á.