Sænski rithöfundurinn Henning Mankell er látinn, 67 ára að aldri. Frá þessu segir á heimasíðu útgáfufélags Mankell.
Mankell lést í Gautaborg af völdum krabbameins.
Hann er þekktastur fyrir bækur sínar um rannsóknarlögreglumanninn Kurt Wallander sem starfaði í bænum Ystad á suðurströnd Svíþjóðar.
Mankell skrifaði á fimmta tug skáldsagna og leikrita. Bækur hans hafa selst í um 40 milljónir eintaka og verið þýddar á um fjörutíu tungumál.
Mankell bjó um árabil í Maputo í Afríkuríkinu Mósambik þar sem hann starfaði meðal annars sem listrænn stjórnandi leikhússins Teatro Avenida.

