Íslenski boltinn

Pétur segist hafa skorað tuttugu mörk sumarið 1978

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pétur Pétursson í leik með Feyenoord á sínum tíma.
Pétur Pétursson í leik með Feyenoord á sínum tíma. Vísir/Getty
Pétur Pétursson, einn af eigendum markametsins í efstu deild á Íslandi, segist hafa verið rændur einu marki þegar hann skoraði fyrstur allra 19 mörk sumarið 1978.

Pétur er einn af fjórum leikmönnum sem hafa skorað 19 mörk á einu tímabili í efstu deild en hinir eru þeir Guðmundur Torfason (Fram 1986), Þórður Guðjónsson (ÍA 1993) og Tryggvi Guðmundsson (ÍBV 1997).

Allir fjórir skoruðu þeir mörkin í 10 liða og 18 leikja deild en enginn hefur verið nálægt því að bæta metið síðan að deildin breyttist í 12 liða og 22 leikja deild sumarið 2008.

„Ég skoraði reyndar eitt mark í viðbót á Íslandsmótinu þetta sumar. Ég skoraði gegn Fram upp á Skaga en markið var ekki dæmt gilt. Dómarinn dæmdi mark en línuvörðurinn flaggaði og taldi að boltinn hefði ekki farið inn fyrir marklínuna. Ég á ljósmynd af atvikinu og tuttugasta markið var því tekið af mér, því miður. Boltinn var langt inni," sagði Pétur í viðtali við Kristján Jónsson í Morgunblaðinu í dag.

Pétur hefur reyndar eitthvað ruglast á leikjum í minningunni því hann missti af þessum leik á móti Fram upp á Akranesi sumarið 1978. Matthías Hallgrímsson skoraði þá eina mark Skagamanna í 1-0 sigri. Hér fyrir neðan má sjá greinar Dagblaðsins og Þjóðviljans um þann leik.

Pétur spilaði alla hina sautján leiki Skagaliðsins þetta sumar og er eini af þeim fjórum sem eiga markametið sem spilaði leik minna á metsumri sínu.

Pétur furðar sig á því að enginn sé búinn að slá markmetið hans á þessum 37 árum. „Ég gerði ráð fyrir því að næsta kynslóð á eftir mér myndi sjá til þess," sagði Pétur í fyrrnefndu viðtali.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×