Íslenski boltinn

Præst: Ég verð ruslakallinn

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Michael Præst í búningi KR í dag.
Michael Præst í búningi KR í dag. vísir/tom
Michael Præst, fyrrverandi fyrirliði Stjörnunnar, samdi í dag við KR til tveggja ára, en greint var frá því fyrr í mánuðinum að hann ætlaði ekki að halda áfram í Garðabænum.

"Þetta kom fyrst upp fyrir tveimur árum," sagði Præst við Vísi eftir blaðamannafundinn aðspurður um hvenær hann varð fyrst var við áhuga KR-inga.

"Svo var það aftur í gær þegar ég talaði við umboðsmanninn minn. Eftir það gengu hlutirnir hratt og vel fyrir sig. Þegar báðir aðilar hafa svona mikinn áhuga á hvor öðrum er auðvelt að komast að samkomulagi."

Þessi grjótharði miðjumaður sagði að það voru ekki mörg félög sem komu til greina þegar hann yfirgaf Stjörnuna.

"Þegar ég sagði Stjörnunni að ég myndi ekki vera áfram geturðu ímyndað þér að það voru bara eitt til tvö félög sem ég hafði áhuga á að fara til. KR lá því frekar beint við," sagði Præst, en af hverju yfirgaf hann Garðabæinn?

"Ég var hjá Stjörnunni í þrjú ár og ég fann það í sumar að ég þurfti á breytingu að halda. Ég þurfti að prófa eitthvað nýtt til að þróast sem leikmaður og persóna. Ég þarf að fá ný augu til að horfa á mig; nýjan þjálfara og samherja."

Præst kom til baka í byrjun nýafstaðins tímabils eftir krossbandsslit og var ekki líkur sjálfum sér fyrstu vikurnar. Var hann sáttur með eigin frammistöðu?

"Það var erfitt að spila eftir að koma úr meiðslunum. Ég var svolítið ryðgaður í fyrstu 6-8 leikjunum. Ég var ánægður með mína frammistöðu seinni hlutann. Þar sýndi ég hvað ég get," sagði Præst við Vísi.

"Nú hlakka ég til að geta náð heilu undirbúningstímabili. Vonandi get ég byggt á því og þá verð ég mikilvægur leikmaður fyrir KR."

Præst reiknar með að spila svipaða stöðu hjá KR og hjá Stjörnunni.

"Ég verð aftarlega sem varnarsinnaður miðjumaður og reyni að létta af pressunni á vörninni. Svo get ég vonandi hjálpað okkar frábæru sóknarmönnum að gera það sem þeir gera best. Ég verð bara ruslakallinn," sagði Præst og hló.

Hann segist fullmeðvitaður um pressuna sem fylgir því að spila fyrir KR.

"Það er ástæðan fyrir því að ég kom í KR. Ég vil finna fyrir þessari pressu. Eftir að tala við þjálfarana og forráðamennina veit ég að þetta er rétta skrefið fyrir mig. Ég hlakka til að spila fyrir KR," sagði Michael Præst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×