Íslenski boltinn

Samningur við Sito á borðinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Úr viðureign Fylkis og ÍBV í sumar.
Úr viðureign Fylkis og ÍBV í sumar. Vísir/Stefán
Spænski framherjinn Jose Sito hefur ekki enn skrifað undir samning við Fylki að sögn Ásgeirs Ásgeirssonar, formanns knattspyrnudeildar Fylkis.

Þetta sagði Ásgeir í samtali við Vísi í dag en staðfestir að viðræður séu langt komnar við Sito og að samningur liggi á borðinu.

„Það er ekki búið að skrifa undir neitt. Við eigum eftir að klára þetta með undirskrift en það ætti að vera formsatriði,“ sagði Ásgeir. Sjálfur sagði Sito í samtali við mbl.is að það hafi verið rangt eftir honum haft í spænsku viðtali þar sem hann virðist staðfesta félagaskipti sín við Fylki.

„Ég sagði þeim að ég ætti eftir að velja á milli Fylkis og ÍBV en þeir settu það svona upp. Annars veit ég bara að ÍBV hefur verið í viðræðum við umboðsmanninn minn og þetta er allt óljóst ennþá," sagði Sito.

Sjá einnig: Sito: Ég er búinn að semja við Fylki

ÍBV hyggst kæra Fylki fyrir að ræða við samningsbundinn leikmann en á Íslandi gildir sú regla að ekki má ræða við leikmenn sem verða samningslausir nú á haustmánuðum fyrr en 16. október.

Ásgeir ítrekar að Fylkismenn hafi ekki haft rangt við í máli Sito, en forráðamenn ÍBV segjast vera með sannanir um annað. „Við stöndum við allt það sem við höfum sagt í þessu máli. Ef Eyjamenn telja sig vera með eitthvað í hendi þá klára þeir bara sín mál. Við höfðum ekki rangt við.“




Tengdar fréttir

Formaður ÍBV: Erum með sannanir í málinu

ÍBV er harðákveðið í því að kæra Fylki fyrir að hafa rætt ólöglega við framherjann Jose Sito. Það sem meira er þá halda Eyjamenn því fram að Fylkir hafi samið við leikmanninn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×