NFL-deildin heldur áfram að breiða úr sér í Bretlandi og ætlar nú að spila leiki á rúgbý-leikvangi Englendinga.
Undanfarin ár hafa nokkrir leikir í NFL-deildinni farið fram á Wembley og það verður áfram. NFL er með samning um að spila að minnsta kosti tvo leiki á ári á Wembley til ársins 2020.
Nýi samningurinn við rúgbý-samband Englendinga gerir það að verkum að minnsta kosti þrír leikir munu fara fram á þjóðarleikvangi Englendinga í Twickenham. Sá samningur tekur gildi á næsta ári.
Svo var NFL-deildin búin að semja við Tottenham Hotspir um að minnsta kosti tvo leiki á ári á heimavelli þeirra frá árinu 2018.
Alls hafa 14 NFL-leikir farið fram á Wembley síðan byrjað var að spila þar árið 2007.
