Gunnar Nelson er í 14. sæti á styrkleikalista UFC í veltivigtarflokki eftir tapið gegn Demian Maia í Las Vegas um helgina.
Gunnar fellur um tvö sæti og missir þá Kelvin Gastelum og Benson Henderson fyrir ofan sig. Rick Story, sem vann Gunnar á síðasta ári, er í ellefta sæti. Þessi tvö töp eru einu töp Gunnars á MMA-ferli hans.
Sjá einnig: Maia var of stór biti fyrir Gunnar Nelson
Robbie Lawler er ríkjandi meistari í veltivigt en Rory MacDonald er efstur áskorendanna samkvæmt styrkleikaröðuninni. Maia fer upp í fimmta sætið eftir sigurinn á Gunnari og hefur því sætaskipti við Matt Brown.
Jose Aldo er ekki lengur besti bardagamaður UFC pund fyrir pund en Demetrious Johnson hefur nú tekið efsta sætið á þeim lista. Jon Jones er annar en Conor McGregor, sem rotaði Aldo á aðeins þrettán sekúndum í titilbardaga þeirra í fjaðurvigt um helgina, rýkur upp um níu sæti á listanum og er nú þriðji.
Sjá einnig: Maia sló Gunnar 193 sinnum
Aldo fellur niður í 6.-7. sæti og deilir því með Robbie Lawler, áðurnefndum veltivigtarmeistara.
Ronda Rousey er í þrettánda sæti yfir bestu bardagamennina og Holly Holm, sem vann Rousey nýverið, er í fimmtánda sæti.
