Íslenski boltinn

Garðar framlengir við ÍA

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Garðar Gunnlaugsson ásamt Magnúsi Guðmundssyni formanni KFÍA og Jóni Þór Haukssyni aðstoðarþjálfara meistaraflokks karla.
Garðar Gunnlaugsson ásamt Magnúsi Guðmundssyni formanni KFÍA og Jóni Þór Haukssyni aðstoðarþjálfara meistaraflokks karla. Mynd/ÍA
Garðar Gunnlaugsson, þriðji markahæsti leikmaður Pepsi-deildar karla í fótbolta í sumar, verður áfram í herbúðum Skagamanna. Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu ÍA.

Garðar var með samning út næsta tímabil en nýr samningur gildir út keppnistímabilið 2017. Garðar skoraði 9 mörk í 17 leikjum í Pepsi-deildinni 2015 og fékk bronsskóinn.  Skagamaðurinn Garðar kom þar með  í veg fyrir að erlendir leikmenn fengu í fyrsta sinn gull, silfur og bronsskóinn á sama tímabili í efstu deild karla á Íslandi.

Garðar var sérstaklega mikilvægur ÍA liðinu í útileikjunum en hann skoraði 6 af 9 mörkum sínum í Pepsi-deildinni 2015 á útivelli en enginn annar leikmaður úrvalsdeildar karla skoraði fleiri mörk á útivöllum sumarið 2015.

Garðar skoraði þar með 43 prósent marka Skagaliðsins utan Akraness (6 af 14) og Garðar var með mark í fimm af sex útileikjum þar sem Skagaliðið náði í stig en þar á meðal var sigurmark á Leiknisvelli og mörk sem tryggðu ÍA jafntefli í Garðabænum og í Víkinni.

„Garðar er mikilvægur hlekkur í liðinu og ég er gríðarlega ánægður með að búið sé að tryggja krafta hans næstu tvö árin," sagði Gunnlaugur Jónsson, þjálfari meistaraflokks ÍA, í viðtali á heimasíðunni.

Garðar er 32 ára framherji sem hefur skorað 41 mark í 116 leikjum í úrvalsdeild karla. Hann hefur skorað 27 af þessum úrvalsdeildarmörkum sínum fyrir Skagamenn og gæti leikið sinn hundraðasta úrvalsdeildarleik fyrir ÍA á næstu leiktíð. Garðar er hefur spilað 89 leiki fyrir ÍA í efstu deild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×