Lárus Welding, fyrrverandi forstjóri Glitnis, var dæmdur til fimm ára fangelsisvistar í Stím-málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Jóhannes Baldursson, sem gegndi stöðu framkvæmdastjóra markaðsviðskipta Glitnis fékk tveggja ára fangelsisdóm og Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, fyrrverandi forstjóri Sögu Capital, fékk átján mánaða dóm.
Í málinu var Lárus ákærður ásamt þeim Jóhannesi og Þorvaldi fyrir lánveitingar Glitnis til hlutabréfakaupa í Glitni og FL Group. Mennirnir neituðu allir sök.
Sjá einnig:Þorvaldur Lúðvík ætlar að áfrýja dómnum
Forsaga málsins er sú að félagið Stím fékk tæplega 20 milljarða króna að láni frá Glitni til að kaupa hlutabréf í Glitni og FL Group í nóvember árið 2007. Seljandi bréfanna var Glitnir en um var að ræða rúmlega 4 prósenta hlut í hvoru tilfelli. Veðin fyrir láni Stíms voru í hlutabréfunum í Glitni og FL Group.
Fór saksóknari Hólmsteinn Gauti Sigurðsson fram á fangelsisdóma yfir öllum ákærðu, nánar tiltekið 5 ára dóm yfir Lárusi, 3 ára dóm yfir Jóhannesi og 18 mánaða dóm yfir Þorvaldi. Þorvaldur var viðstaddur dómsuppkvaðningu en Lárus og Jóhannes ekki. Héraðsdómur féllst á kröfu saksóknara að öllu leyti nema því að dómur Jóhannesar var tvö ár en ekki þrjú. Hann hefur þegar hlotið þriggja ára dóm í BK-málinu svonefnda.
Símon Sigvaldason kvað upp dóminn en allir dómararnir voru sammála. Dóminn í heild má lesa hér.
Stím-málið: Lárus Welding dæmdur í fimm ára fangelsi

Tengdar fréttir

Stím-málið: „Jón Ásgeir er á djöflamergnum“
Einstaka símtal hefur verið spilað fyrir dómi við aðalmeðferð Stím-málsins seinustu daga. Slíkt var gert í dag þegar Guðný Sigurðardóttir, sem var lánastjóri hjá Glitni fyrir hrun, gaf skýrslu.

Segja 20 milljarða króna lán til Stím mistök eða yfirsjón
Nefndarmenn í áhættunefnd Glitnis fyrir hrun hafa komið fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur og gefið skýrslu í Stím-málinu bæði í gær og í dag.

Stím-málið: „Lögreglumennirnir gapandi eins og fimm ára barn sem heyrir lygasögu í fyrsta skipti“
Saksóknari fer fram á þunga fangelsisdóma yfir öllum ákærðu, nánar tiltekið 5 ára dóm yfir Lárusi, 3 ára dóm yfir Jóhannesi og 18 mánaða dóm yfir Þorvaldi.