Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsmálaráðherra, segir ríkisstjórnina ekki kalla eftir lögum á verkfall BHM á meðan enn er líf í viðræðum. Fréttablaðið hefur þó heimildir fyrir því að slík lagasetning sé í bígerð og lög verði sett eftir helgi, jafnvel strax á mánudag, hafi ekki samist.
„Við erum ekki, á meðan það er líf í viðræðum, að boða lög á verkfallið. Ég verð samt að segja það að ég hef áhyggjur af því að ekki skuli hafa verið boðað til fundar og það skuli ekki hafa náðst betur saman á síðasta fundi með BHM,“ sagði Bjarni í gær, þegar hann ræddi við blaðamenn í hléi sem gert var á ríkisstjórnarfundi.
Bjarni sagði ekki á dagskrá þess fundar að ræða lög á verkfallið, en staðan í kjarasamningum yrði rædd. Hann hefði þó þungar áhyggjur af málinu.
„Þetta eru viðræður sem hafa verið í gangi í mjög, mjög langan tíma. Þetta mál horfir þannig við mér að það eru einfaldlega of miklar væntingar um breytingar í einu skrefi, í einum samningi, og það er verið að biðja um að hlutir séu leiðréttir sem hefur eitthvað misgengi verið með, jafnvel tíu ár aftur í tímann. Það er eitthvað sem við getum ekki orðið við.“
Lög á verkfallið í undirbúningi
