Íslenski boltinn

Besta byrjun Breiðabliks frá meistaraárinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Blikar eru búnir að vinna sex af sjö leikjum sínum.
Blikar eru búnir að vinna sex af sjö leikjum sínum. vísir/valli
Breiðablik hefur farið liða best af stað í Pepsi-deild kvenna. Blikastúlkur unnu gríðarlega mikilvægan 1-0 sigur á Selfossi í Pepsi-deildinni í fyrradag en með honum náðu þær fjögurra stiga forskoti á toppi deildarinnar.

Blikar eru búnir að vinna sér inn 19 stig, fjórum meira en Stjarnan og Selfoss sem eru í 2. og 3. sæti. Blikastúlkur eru búnar að vinna sex af fyrstu sjö leikjum sínum og gera eitt jafntefli. Markatalan er líka frábær; 23 mörk skoruð og aðeins tvö fengin á sig.

Breiðabliki var spáð sigri í Pepsi-deildinni í ár og byrjunin lofar allavega góðu. Sérstaklega í ljósi þess að Blikar hafa ekki byrjað jafn vel í efstu deild síðan 2005 – árið sem félagið varð síðast Íslandsmeistari.

Þá unnu Blikar fyrstu sjö leiki sína með markatölunni 28-5 og voru með 21 stig á toppi deildarinnar, þremur stigum á undan Val. Þegar upp var staðið fékk Breiðablik 40 stig í 14 leikjum árið 2005; vann 13 leiki og gerði eitt jafntefli. Blikar eru þegar búnir að tapa jafn mörgum stigum í ár og allt tímabilið 2005 en miðað við spilamennsku liðsins í sumar er ólíklegt að það tapi mörgum stigum til viðbótar.

Aðeins einn leikmaður er eftir í Breiðabliksliðinu frá Íslandsmeistaraárinu 2005. Það er landsliðskonan Fanndís Friðriksdóttir sem kom fyrst inn í lið Breiðabliks sumarið 2005, aðeins 15 ára gömul. Fanndís, sem er markahæst í Pepsi-deildinni í ár, lék þrjá leiki í efstu deild sumarið 2005 og skoraði eitt mark.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×