Sumir hafa verið svo illa á sig komnir að skálaverðir hafa þurft að koma á móti þeim og bera þá inn í skála.
„Skálaverðir Ferðafélags Íslands, og þá einkum skálaverðir í Hrafntinnuskeri, hafa unnið björgunarafrek á hálendinu síðustu vikur. Þeir hafa bæði farið á móti vanbúnum og hræddum ferðamönnum og á eftir þeim og borið þá upp í skála. Þeir hafa tekið á móti grátandi ferðamönnum sem hafa alls ekki verið búnir til göngu í snjó og krapa. Skálaverðirnir hafa staðið sig ótrúlega vel í þessum krefjandi aðstæðum,“ segir Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands. Dæmi um þessi tilvik séu fjölmörg.

„Undanfarin 20 ár hefur hálendið að meðaltali verið opið í júlí og ágúst. Það hefur tekist vel að markaðssetja Ísland en það þarf að taka tillit til þeirra aðstæðna sem ráða á hálendinu. Menn verða að sýna ábyrgð og upplýsa ferðamenn um þær aðstæður sem þeir geta lent í ef þeir eru svona snemma eða seint á ferðinni.“
Að sögn Páls eru margir erlendu ferðamannanna sem leggja af stað í göngu yfir hálendið í hlífðarfatnaði sem heldur hvorki vatni né vindi. Sumir eru með lítið nesti og ónýtt tjald.

Gangan úr Landmannalaugum í Hrafntinnusker er um 15 km og yfir í Álftavatn eru 26 km.
„Það er óhemjumikill snjór núna í Hrafntinnuskeri en minni við Álftavatn. Nú er að vísu að komast hefðbundið ástand á leiðina. Ég held samt að ég geti sagt að það verði snjór fram í ágúst í Hrafntinnuskeri en ef menn eru í góðum búnaði er hægt að ganga í snjó á fjöllum,“ segir Páll Guðmundsson.