Sóley er fædd og uppalin á Sauðárkróki en ættuð utan af Skaga. Nú býr hún á höfuðborgarsvæðinu en er greinilega holl gömlu heimabyggðinni í huga. „Skagafjörður er söguríkt svæði. Þar gerist Grettissaga að stóru leyti og Sturlunga líka og þegar Jón Árnason safnaði saman þjóðsögunum varð honum vel ágengt í Skagafirði, þannig að úr mörgu var að velja fyrir mig.“

Sögurnar eru bæði til lestrar og hlustunar. Þær sem hægt er að hlýða á eru á nútímatalmáli að sögn Sóleyjar. En er hún með einhverjar úr samtímanum? „Já, aðeins. Ein þeirra er til dæmis frá 1978 um vegagerð í Hegranesi þar sem allt gekk á afturfótunum og öll tæki biluðu þegar átti að sprengja veginn í gegnum klöpp en samningar náðust við huldufólkið.“
Sóley kveðst ætla að búa til sérstakt forrit fyrir skólana í Skagafirði, því bæði Íslendingasögurnar og þjóðsögurnar tengist námskránni. „Ég held að sögurnar veki meiri áhuga þegar krakkarnir geta tengt þær beint við umhverfið í kringum sig. Það gerir landið verðmætara í augum þeirra og ef fólk er ánægt með heimabyggðina þá hefur það áhrif á sjálfsmynd þess.“
Hún tekur fram að forritið kosti ekkert og því sé tilvalið fyrir sem flesta að sækja það. „Fólk þarf ekki að vera í Skagafirði til að setja það inn, ef það er með slökkt á staðsetningunni. Ég var með tvær ungar frænkur frá Danmörku í heimsókn nýlega og þær voru bara með forritið í gangi hér í Reykjavík að hlusta á skagfirskar draugasögur.“