Málið er annað tveggja sem verið hefur til umfjöllunar í fjölmiðlum. Í hinu málinu var lögreglumaður hjá fíkniefnadeild í gæsluvarðhaldi frá því fyrir áramót og þangað til í gær. Sá sem hér er til umfjöllunar hefur verið hærra settur innan lögreglu og með titil lögreglufulltrúa.

Ásakanirnar þrálátu á hendur lögreglufulltrúanum voru aldrei rannsakaðar af Ríkissaksóknara. Þangað ber að vísa slíkum málum vakni grunur um brot í starfi.
Engu að síður tilkynnti Karl Steinar samstarfsmönnum mannsins að ásakanirnar hefðu verið rannsakaðar. Maðurinn er enn við störf hjá lögreglu og hefur aldrei verið vikið frá störfum. Aðeins færður til á milli deilda.
Svo alvarlegar voru ásakanirnar að samstarfsmenn töldu annað en ómögulegt að málin yrðu tekin til formlegrar rannsóknar. Svo fór ekki og er lögreglufulltrúinn enn við störf hjá lögreglu.
Hann hefur hins vegar endurtekið verið færður á milli deilda undanfarna mánuði, alls þrisvar sinnum, samstarfsmönnum sínum til mikillar furðu. Þeir telja ótækt að komi upp slíkar ásakanir á hendur mönnum að slíkt sé ekki rannsakað til að komast að hinu rétta.

Karl Steinar lét af embætti yfirmanns fíkniefnadeildar í febrúar 2014 eftir sjö ára starf og hefur síðan verið búsettur í Hollandi.
Þar gegnir hann stöðu tengifulltrúa Íslands hjá Evrópsku lögregluskrifstofunni, Europol.
Í tíð hans sem yfirmanns fíkniefnadeildar bárust endurtekið ábendingar, bæði frá samstarfsmönnum sem og almenningi, þess efnis að umræddur lögreglufulltrúi væri í samstarfi við glæpamenn.

Í eitt skiptið þar sem ásakanir á hendur lögreglufulltrúanum höfðu verið sérstaklega háværar fullyrti Karl Steinar við fjölmennan hóp undirmanna sinna og samstarfsmanna lögreglufulltrúans að rannsókn hefði farið fram á ásökununum. Þær væru ekki á rökum reistar. Menn ættu ekki að ræða málið frekar.
Vísir hefur áreiðanlegar heimildir fyrir því að engin formleg rannsókn fór fram þrátt fyrir fullyrðingar Karls Steinars.
Hvers lags rannsókn það var sem Karl Steinar upplýsti undirmenn sýna um að fram hefði farið á ásökunum á hendur lögreglumanninum er ómögulegt að segja.
Samstarf Karls Steinars við lögreglufulltrúann mun hafa verið afar náið og þeir náð sérstaklega vel saman.
Karl Steinar vildi ekki tjá sig um málið þegar blaðamaður bar umfjöllunarefni fréttarinnar undir hann.

Kim Kliver, rannsóknarlögreglumaður og yfirlögregluþjónn hjá dönsku lögreglunni, segir reglurnar afar skýrar í Danmörku hvað varðar þegar upp koma ásakanir á hendur lögreglumönnum. Hið sama gildi í Noregi og Svíþjóð. Sjálfstæð og óháð deild taki slík mál til skoðunar.
„Ef einhver sakar lögreglumann um refsivert athæfi eða leka innan lögreglu þá tekur óháður saksóknari málið til skoðunar. Lögregla rannsakar aldrei ásakanir á sjálfa sig,“ segir Kliver í samtali við Vísi. Það komi skýrt fram í dönskum lögum að öllum athugasemdum skuli um leið vísa áfram til saksóknara.
Fyrrnefndur lögreglufulltrúi gegndi á sama tíma yfirmannsstöðu hjá upplýsingadeild og fíkniefnadeild lögreglu. Fyrirkomulagið þykir gagnrýnisvert og þekkist ekki í nágrannalöndum okkar að sögn Kliver. Sami maður á aldrei að hafa yfirsýn yfir uppljóstrara, sem í mörgum tilfellum tengjast fíkniefnamálum, og um leið stýra rannsóknum í fíkniefnamálum.
Rétt er að taka fram að Vísir leitaði til Kliver sökum þess að afar erfitt hefur reynst að fá svör frá yfirmönnum í íslensku lögreglunni undanfarnar vikur og mánuði í tengslum við málið.

Um mitt síðasta ár ofbauð samstarfsmönnum lögreglufulltrúans. Gengu sumir svo langt að hóta því að segja upp yrði ekkert gert vegna ásakananna. Var lögreglufulltrúinn í kjölfarið færður til starfa í deild ótengda rannsóknum á fíkniefnamálum.
Eftir nokkra mánuði í því starfi var hann svo færður í deild sem sér um símhlustanir en starfsmenn í þeirri deild hafa aðgang að upplýsingum um hvaða meintu afbrotamenn verið er að hlera hverju sinni. Í mörgum tilfellum er um aðila að ræða sem fíkniefnadeild hefur til rannsóknar.
Samstarfsmönnunum var brugðið og þótti ákvörðunin um þá tilfærslu óskiljanleg. Nýlega, eftir umfjöllun Vísis um málefni lögreglufulltrúans og einstaka stöðu hans sem yfirmanns í deildunum tveimur, var lögreglufulltrúinn svo enn á ný færður til og er nú við störf hjá tæknideild lögreglu.
Ríkissaksóknari hefur enn sem komið er ekki hafið rannsókn á meintum brotum lögreglufulltrúans í starfi. Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari hefur sagst ekki geta tjáð sig um mál lögreglufulltrúans.