Handbolti

Frábær sigur hjá Patreki og strákunum hans á Ítalíu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Patrekur Jóhannesson
Patrekur Jóhannesson Vísir/AFP
Patrekur Jóhannesson og lærisveinar hans í austurríska landsliðinu í handbolta eru í frábærum málum í undankeppni HM 2017 eftir flottan útisigur í kvöld.

Austurríkismenn eru með fullt hús eftir þrjá leiki en liðið sótti tvö stig til Trieste á Ítalíu í kvöld.

Austurríki vann leikinn sannfærandi með þrettán marka mun, 40-27, og hefur nú unnið öll hin þrjú liðinu í riðlinum. Austurríki hafði áður unnið heimasigur á Rúmeníu og útisigur á Finnlandi.

Hinn 19 ára gamli Nikola Bilyk skoraði níu mörk í kvöld og það úr aðeins 10 skotum. Sebastian Frimmel skoraði fimm mörk og þeir Janko Bozovic og Raul Santos gerðu báðir fjögur mörk.

Austurríska liðið var með 83 prósent skotnýtingu og 62 prósent sóknarnýtingu í leiknum.

Austurríkismenn voru með fjögurra marka forystu í hálfleik, 16-12, eftir að hafa unnið síðustu ellefu mínútur hálfleiksins 7-3.

Austurríska liðið skoraði síðan fjögur af fyrstu fimm mörkum seinni hálfleiksins og stakk Ítalina af.

Austurríkismennirnir komust mest ellefu mörkum um miðjan hálfleikinn og þá var aðeins spurning um hversu stór sigurinn yrði. Ítalirnir gáfust upp í lokin og á endanum munaði þrettán mörkum á liðunum.

Austurríkismenn mæta Ítölum aftur um næstu helgi en sá leikur fer fram á þeirra heimavelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×