Í NFL-deildinni snúast hlutirnir að stóru leyti um peninga enda ferillinn stuttur. Það er því óvænt þegar leikmaður gefur frá sér tækifæri á stórri útborgun.
Einn besti varnarmaður Dallas Cowboys, Sean Lee, gerði það þó um helgina. Þá gaf hann frá sér tæpar 262 milljónir króna með því að spila ekki lokaleikinn í deildarkeppninni.
Í samningi Lee er ákvæði um að ef hann spilar meira en 80 prósent allra leikkerfa á tímabilinu þá fengi hann bónus upp á áðurnefnda upphæð.
Þó svo ekkert væri undir og Lee hefði getað spilað í gegnum smá meiðsli þá sleppti hann því. Hann var búinn að spila 82,1 prósent kerfanna í vetur en fór í 77 prósent með því að spila ekki.
„Það var ég sem tók ákvörðunina um að spila ekki. Mér fannst ég ekki getað hjálpað liðinu nóg í því standi sem ég var. Ég ætla ekki að vanvirða félaga mína með því að spila þegar ég er ekki betri en þetta," sagði Lee eftir leikinn.

