Skoðun

Slitastjórn Glitnis; In Memoriam

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson skrifar

Nú þegar slitastjórn Glitnis banka hf. er í andaslitrunum langar mig að minnast hennar. Leiðir okkar lágu fyrst saman árið 2010 þegar slitastjórnin stefndi umbjóðanda mínum í New York ásamt sex öðrum Íslendingum.

Umbjóðandi minn frétti af málsókninni í fjölmiðlum, en slitastjórnin upplýsti hann um málsóknina með fréttatilkynningu til fjölmiðla. Slitastjórnin fylgdi henni eftir með blaðamannafundi á Hótel Nordica. Blaðamannafundurinn og stefnan í málinu var birt á netinu og vakti heimsathygli.

Í stefnunni segir m.a. að umbjóðandi minn hafi verið hluti af glæpaklíku sem hafði meira en tvo milljarða dollara af Glitni með sviksamlegum og ólögmætum hætti. Aðspurður sagði formaður slitastjórnarinnar að gögn sýndu að Glitnir hefði verið rændur innan frá og málsóknin væri skref í þá átt að draga stefndu til ábyrgðar.

Það var lítil stemming fyrir þessum málatilbúnaði í New York og um miðjan desember 2010 var málinu vísað frá. Slitastjórnin áfrýjaði niðurstöðunni en féll ári síðar frá áfrýjuninni. Sú ákvörðun segir töluvert um réttmæti málsóknarinnar enda tilgangur slitastjórnarinnar líklega aðeins að valda stefndu fjártjóni og skaða orðspor þeirra.

Stuttu síðar höfðaði slitastjórnin nýtt dómsmál á hendur umbjóðanda mínum og níu öðrum fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

Á nýjan leik var umbjóðanda mínum kynnt málsóknin í fjölmiðlum. Nú í Kastljósinu.

Rétt fyrir jól 2015 felldi slitastjórnin málið niður gagnvart öllum stefndu. Sem fyrr segir það meira en mörg orð um málstaðinn. Þegar umbjóðandi minn gerði kröfu um málskostnað krafðist slitastjórnin þess að málið á hendur honum yrði endurvakið. Því hafnaði héraðsdómur.

Slitastjórnin hefur því höfðað tvö dómsmál á hendur umbjóðanda mínum, kostað til þess milljörðum, og fellt bæði málin niður. Eðli málsins samkvæmt hafa þessar þarflausu málsóknir bakað umbjóðanda mínum fjártjón og miska. Það tjón er enn óbætt. Eins og tjón kröfuhafa þrotabúsins sem borga brúsann.

Við leiðarlok vil ég þakka slitastjórninni samfylgdina. Megi hún hvíla í friði. Fáir munu sakna hennar, en þeim sem vilja minnast hennar er bent á Kroll International Ltd.

Höfundur er lögmaður.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×