Valitor, hitt stóra greiðslumiðlunarfyrirtækið á Íslandi, er í annarri stöðu en á árunum 2011 til 2013 minnkuðu þjónustutekjur fyrirtækisins en viðsnúningur varð svo árið 2014 þegar félagið jók tekjur sínar af þjónustu um 1,4 milljarð króna á milli ára.
Þjónustutekjurnar eru meginuppistaða í hagnaði félaganna en hagnaður Borgunar af þjónustu, það er þjónustutekjur félagsins að frádregnum þjónustugjöldum, nam 3,2 milljörðum árið 2014 og Valitor 4,2 milljörðum.
Það er margfaldur hagnaður hjá Borgun miðað við árið 2011 en minni hagnaður hjá Valitor.
Heildarniðurstaða, allar tekjur, svo sem fjármunatekjur, og að frádregnum öllum gjöldum, svo sem launakostnaði og vaxtagjöldum vegna skulda, hafa dregist saman hjá Valitor en aukist til muna hjá Borgun.

Samanlagður hagnaður fyrirtækjanna á árunum 2011 til 2014 nemur rúmum fimm milljörðum króna.
Það hefur talsverð áhrif á afkomu Valitor að árin 2014 og 2015 greiddi fyrirtækið samtals 720 milljónir króna í sektir og tengdan kostnað.

Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokks, furðar sig á því að fyrirtæki sem sinni greiðslumiðlun séu hagnast um jafn háar fjárhæðir. Í samtali við kvöldfréttir Stöðvar 2 í gær sagðist hann telja að Samkeppniseftirlitið og Neytendastofa ættu að skoða málið.
„Evrópusambandið hefur verið að horfa í kortafyrirtækin á undanförnum árum og ýmislegt hefur komið fram þar. Ég tel að Neytendastofa og Samkeppniseftirlitið eigi að líta til þessara atriðið því það er ekki eðlilegt að það skuli kom fram ofurhagnaður í jafn einfaldri starfsemi og þessari. þá er ég að tala um að það skuli verða til eitthvert ofurverð á fyrirtæki sem heitir Borgun,“ sagði hann.
Málefni Borgunar hafa verið mikið til umræðu undanfarið eftir að í ljós kom að fyrirtækið muni hagnast umtalsvert á yfirtöku Visa International á Visa Europe.

Eftir að yfirtakan á Visa Europe og tekjur Borgunar af henni voru ljós fór Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingar, fram á að Fjármálaeftirlitið og eftir atvikum þingið tæki málið til skoðunar.
„Ef þú selur manni eitthvað og hann getur gert úr því gríðarleg verðmæti á skömmum tíma, þá hlýtur maður að spyrja sig: „Máttir þú ekki sjá það fyrir sem seljandi?“ Og það er held ég fyrst og fremst það sem ég tel að Fjármálaeftirlitið þyrfti að horfa til,“ sagði Árni Páll í þættinum Stjórnmálavísi um málið.