Íslenski boltinn

Sonur Eiðs Smára skoraði í kvöld þegar HK vann úrslitaleik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það er langt síðan þessi mynd var tekin af þeim feðgum.
Það er langt síðan þessi mynd var tekin af þeim feðgum. Vísir/GVA
Sveinn Aron Guðjohnsen, sonur landsliðsmannsins Eiðs Smára Guðjohnsen var enn af markaskorurum HK í kvöld þegar liðið vann 3-0 sigur á Keflavík í úrslitaleik B-deildar Fótbolti.net mótsins.

Bæði liðin spila í 1. deildinni í sumar en Keflavík féll úr Pepsi-deildinni í fyrra. Leikurinn fór fram í Reykjaneshöllinni og það dugði Keflavíkurliðinu því ekki að vera á heimavelli í kvöld.

Öll mörk HK-liðsins komu í seinni hálfleiknum og skoraði Hákon Ingi Jónsson það fyrsta á 54. mínútu. Hákon Ingi kom til HK frá Fylki.

Sveinn Aron Guðjohnsen kom HK í 2-0 á 58. mínútu og Ísak Óli Helgason innsiglaði síðan sigurinn fjórum mínútum fyrir leikslok.

Sveinn Aron Guðjohnsen er fæddur árið 1998 og verður því átján ára á þessu tímabili. Hann skoraði líka í 2-1 sigri á Aftureldingu í riðlakeppninni.

Ísak Óli Helgason er líka fæddur árið 1988 og það er því gaman fyrir HK-inga að sjá þessa ungu leikmenn félagsins komast á blað í úrslitaleik. Reynir Leósson, þjálfari liðsins, ætlar greinilega að gefa þessum efnilegu knattspyrnumönnum tækifæri í ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×