Ákall um gagnsæi
„Þetta er bara ákall sem ég er tilbúinn að taka þátt í með Pírötum að nái fram að ganga. Aukið gagnsæi og að kerfið sé einfaldað,“ segir hann. Vilhjálmur segir í viðtalinu að enginn hafi aukið gagnsæi í stjórnsýslunni en Davíð Oddsson, fyrrverandi formaður flokksins.
„Við skulum ekki gleyma því hver kom á stjórnsýslulögum og upplýsingalögum. Það var Davíð Oddsson. Hvað annað í opinberri stjórnsýslu hefur aukið gagnsæi meira og bætt vinnubrögð innan stjórnsýslunnar?“ spyr hann.

Vilhjálmur telur að Píratar og Sjálfstæðisflokkurinn geti átt samleið í ríkisstjórn. „Klárlega,“ segir hann. Það gæti farið svo að það reyni á hvort flokkarnir finni samstarfsflöt eftir næstu kosningar, ef marka má niðurstöður kannana síðustu mánaða.
Píratar eru með þrjá þingmenn í dag og í minnihluta á þinginu á meðan Sjálfstæðisflokkurinn er með 19 þingmenn og í ríkisstjórn. Samkvæmt könnunum mun dæmið hins vegar að öllum líkindum snúast við í næstu kosningum.
Píratar mælast stærstir með 35,6 prósenta fylgi samkvæmt könnun MMR sem birt var í gær, en flokkurinn hefur um alllangt skeið mælst stærsti flokkurinn. Sjálfstæðisflokkurinn mældist með 21,1 prósent.