Handbolti

Geir: Naut og bernaise með mömmu í kvöld

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Geir Guðmundsson fagnar með liðsfélögum sínum í leikslok.
Geir Guðmundsson fagnar með liðsfélögum sínum í leikslok. vísir/andri marinó
Geir Guðmundsson, skytta Valsmanna, skoraði fjögur mörk og var sterkur í vörninni þegar Valur lagði Gróttu, 25-23, í bikarúrslitaleik karla í handbolta í dag.

Valsmenn lögðu grunninn að sigrinum í byrjun seinni hálfleiks þar sem þeir náðu strax fimm marka forskoti.

"Vörnin þéttist svakalega í seinni hálfleik og Bubbi varði eins og berserkur. Á sama tíma náðum við að mjatla inn nokkrum mörkum í sókninni og fengum mörk úr hraðaupphlaupum þannig þetta spilaðist eiginlega eins og við vildum," sagði Geir við Vísi eftir leik.

"Við erum rosalega stoltir og ánægðir með þennan varnarleik sem við spiluðum um helgina. Vonandi getum við byggt ofan á þetta og mætt síðan strax ferskir í næsta leik á fimmtudaginn."

Geir var nánast enn í losti eftir sigurinn þegar Vísir ræddi við hann. "Ég er varla búinn að átta mig á þessu enn þá. Ef ég á að lýsa í þessu í einu orði er það alsæla," sagði hann sáttur.

Geir sagði þennan titil gefa Valsliðinu mikið og það hjálpaði til að vinna loksins Haukana aftur sem voru búnir að leggja Valsmenn sex sinnum í röð þar til í gærkvöldi.

"Það var hrikalega sterkt fyrir okkur að vinna Haukana loksins. Við unnum þá reyndar í æfingaleik í janúar en það telur víst ekki. Það er bara frábært að þessi grýla sé loksins farin. Nú vitum við sjálfir að við getum unnið þá ef við spilum okkar leik," sagði Geir, en hvernig verður fagnað í kvöld?

"Ég ætla að fara í nautakjöt og bernaise sósu hjá móður minni sem kom að norðan. Svo á pabbi á afmæli þannig ég fagna aðeins með þeim. Eftir það hitti ég svo strákana og við gerum eflaust eitthvað skemmtilegt saman," sagði Geir Guðmundsson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×