Handbolti

Umfjöllun, viðtöl og myndir: Grótta - Valur 23-25 | Valur bikarmeistari í níunda sinn

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Guðmundur Hólmar Helgason, fyrirliði Vals, lyftir bikarnum í Höllinni í dag.
Guðmundur Hólmar Helgason, fyrirliði Vals, lyftir bikarnum í Höllinni í dag. Vísir/andri marinó
Valur fagnaði sínum níunda bikarmeistaratili í karlaflokki í Laugadalshöll í dag þegar liðið lagði Gróttu, 25-23, í góðum handboltaleik þar sem vörn og markvarsla var í aðalhlutverki.

Sömu lið mættust í úrslitaleiknum fyrir sjö árum síðan og þá hafði Valur betur, en Grótta verður áfram að bíða eftir sínum fyrsta titli í meistaraflokki karla. Valur varð síðast bikarmeistari 2011, en þetta er fjórði bikarmeistaratitilinn sem Óskar Bjarni Óskarsson vinnur sem þjálfari.

Andri Marinó Karlsson, ljósmyndari Fréttablaðsins og Vísis, er á leiknum í Laugardalshöll í dag og tók myndirnar sem hægt er að sjá hér fyrir ofan.

Eins og í undanúrslitaleiknum í gær skoraði Elvar Friðriksson fyrstu tvö mörk Valsmanna en það skilaði þó ekki nema eins marks forystu. Leikurinn var ótrúlega hraður í fyrri hálfleik, en á köflum var þetta eins og að horfa á tennisleik.

Liðin skiptust á að skora í fyrri hálfleik og náðu liðin mest tveggja marka forskoti. Grótta komst í 6-4 eftir frábæran kafla snemma leiks þar sem Aron Dagur Pálsson var óstöðvandi. Hann skoraði fjögur af fyrstu sex mörkum Gróttu úr fjórum skotum.

Sveinn Aron Sveinsson var markahæstur hjá Val.vísir/andri marinó
Valsmenn náðu svo í fyrsta sinn tveggja marka forskoti á lokasekúndum fyrri hálfleiks þegar Vignir Stefánsson kom þeim í 12-10 en þannig var staðan þegar leikmenn gengu til búningsklefa.

Markverðir liðanna áttu sviðið í fyrri hálfleiknum. Lárus Helgi Ólafsson varði ellefu skot af 22 og var með 50 prósent hlutfallsmarkvörslu. Lárus Gunnarsson kom svo inn á til að verja eitt víti sem og hann gerði, en hann bætti um betur og varði einnig frákastið sem Sveinn Aron Sveinsson náði.

Lárus varði nokkrum sinnum úr góðum færum líkt og Hlynur Morthens, kollegi hans í Valsmarkinu sem var með átta skot varin (44 prósent hlutfallsmarkvörslu) í hálfleik. Báður nutu góðs af nokkuð sterkum varnarleik, en Grótta var með átta löglegar stöðvanir á móti sjö hjá Val á fyrstu 30 mínútunum (tölfræði frá HBstatz.com).

Valur lagði grunninn að sigrinum með frábærri byrjun á síðari hálfleik. Hlíðarendapiltar skoruðu fyrstu þrjú mörkin og náðu fimm marka forskoti, 15-10. Varnarleikur liðsins var frábær á þeim kafla, en í heildina spilaði Valur mjög góða vörn alla úrslitahelgina.

Orri Freyr Gíslason, Alexander Örn Júlíusson og Geir Guðmundsson fagna eftir leik í dag.vísir/andri marinó
Valur var áfram með fimm marka forskot, 20-15, þegar seinni hálfleikur var hálfnaður. Það var þó ekki Lárusi Helga Ólafssyni, markverði liðsins, að kenna. Hann var tekinn af velli þegar hálfleikurinn var hálfnaður með 47 prósent hlutfallsmarkvörslu.

Gróttan gafst ekki upp. Nýliðarnir í Olís-deildinni skoruðu þrjú mörk í röð og minnkuðu muninn í 20-18, en þá tók Óskar Bjarni leikhlé sem skilaði sér með þremur mörkum á móti einu, 23-19. Þessi eltingarleikur var þó of mikið fyrir Gróttuna sem þurfti að lúta í gras á endanum eftir heiðarlega baráttu.

Aron Dagur Pálsson bar sóknarleik Gróttu nánast á herðum sér lengi vel, en á góða kafla liðsins í seinni hálfleik kom fyrrverandi Valsmaðurinn Finnur Ingi Stefánsson sterkur inn með fimm mörk og bróðir hans Júlíus Þórir, sem skoraði fjögur mörk.

Liðsframlagið var mikið frá Valsliðinu, en markahæstur var Sveinn Aron Sveinsson með sex mörk. Bæði lið skoruðu töluvert úr hraðaupphlaupum enda varnarleikurinn nokkuð öflugur báðum megin. Grótta gerði þó fleiri mistök í vörninni sem gaf Valsmönnum auðveld mörk.

Valsmenn sýndu um helgina að þeir eru til alls líklegir á Íslandsmótinu enda loksins búnir að vina Haukana aftur og eru nú búnir að vinna einn stóran bikar. Varnarleikur Vals í 120 mínútur í Höllinni lagði grunninn að níunda bikarmeistaratitilinum.

Óskar Bjarni Óskarsson á hliðarlínunni í dag.vísir/andri marinó
Óskar Bjarni: Látum bara einn þrettán ára drippla

Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals, var vitaskuld í skýjunum með bikarsigurinn á Gróttu í Laugardalshöll í dag.

Valsmenn voru með forskotið allan seinni hálfleikinn eftir að komast í 15-10 með fyrstu þremur mörkunum, en Grótta lagði ekki árar í bát.

"Á tímabil í seinni hálfleik leið mér mjög vel en í fyrri hálfleik var sóknarleikurinn stirrður og vörnin svolítið lengi í gang. Það er bara spennustigið og annað. En í heildina var vörnin frábær," sagði Óskar Bjarni.

"Grótta er vel mannað lið og vel þjálfað. Þeir voru aldrei að fara að gefast upp. Við héldum að við værum að slíta þá frá okkur en alltaf kom Gróttan til baka. Flottur leikur hjá þeim."

Valsmenn töpuðu tvíframlengdum undanúrslitaleik í fyrra á móti FH þar sem spennan var mikil undir lokin. Grótta kom framarlega á völlinn til að reyna að knýja fram kraftaverk undir lokin en þá var boltinn settur í hendurnar á Ómari Inga Guðmundssyni.

"Við vorum í þessari stöðu í fyrra þannig við erum ýmsu vanir. Þá er bara gott að láta þrettán ára strák fá boltann og láta hann drippla. Auðvitað er alltaf stress og eitthvað, en ef menn gera þetta rétt og eru rólegir þá er bara gaman," sagði Óskar og brosti.

Valsþjálfarinn gat heldur betur leyft sér að fagna í dag eftir svekkelsi síðasta árs.

"Það var frábær leikur þar sem við köstuðum sigrinum frá okkur. Ef fólk man rétt þá áttum við að vinna því það var dæmt víti undir lokin sem var ekki víti. Það var hrikalega svekkjandi. Ég var nokkra daga að jafna mig á því," sagði Óskar Bjarni Óskarsson.

Hlynur: Svo stoltur af þessu liði að það hálfa væri nóg

Hlynur Morthens, markvörður Vals, átti flottan leik þegar Hlíðarendapiltar lögðu Gróttu, 25-22, í úrslitaleik Coca Cola-bikars karla í handbolta í dag.

"Þegar það er bikar í húfi þá verður maður að gefa sig allan í þetta," sagði Hlynur hress og kátur við Vísi eftir leikinn í dag.

"Það er enginn morgundagur í þessu. Ef maður klikkar í svona leik er maður bara grenjandi í viku og ég nenni því ekki."

Hlynur varði tólf skot í leiknum og var með 34 prósent hlutfallsmarkvörslu. Hann var frábær framan af í seinni hálfleik þar sem Valur náði fimm marka forskoti sem lagði grunninn að sigrinum.

"Við byrjuðum seinni hálfleikinn mjög vel. Bæði lið voru samt þreytt. En við náðum fimm marka forskoti. Þeir samt hættu aldrei enda er þetta drullu gott lið," sagði Hlynur um Gróttuna.

"Ég veit ekki hvernig við fórum að því að klára þetta. Markvarslan hjá mér var ekki góð síðasta korterið, en þetta dugði og ég er ánægður með það."

Varnarleikur Valsliðsins var frábær alla helgina, en liðið komst í úrslitin með því að leggja topplið Hauka í undanúrslitum þökk sé sterkum varnarleik.

"Varnarleikurinn var frábær í báðum leikjum. Orkan sem fór í leikinn í gær var lygileg en menn náðu að rífa sig upp í dag. Það var bara ótrúlegt að sjá þetta. Ég er svo stoltur af þessu liði að það hálfa væri nóg," sagði Hlynur.

Markvörðurinn þrautreyndi var með Hámark og epli í viðtölum eftir leikinn í gær en verður fagnað með einhverju öðru í kvöld?

"Það verður kók og banani," sagði Hlynur Morthens léttur að lokum.

Geir Guðmundsson fagnar með sínum mönnum í leikslok.vísir/andri marinó
Geir: Naut og bernaise með mömmu í kvöld

Geir Guðmundsson, skytta Valsmanna, skoraði fjögur mörk og var sterkur í vörninni þegar Valur lagði Gróttu, 25-22, í bikarúrslitaleik karla í handbolta í dag.

Valsmenn lögðu grunninn að sigrinum í byrjun seinni hálfleiks þar sem þeir náðu strax fimm marka forskoti.

"Vörnin þéttist svakalega í seinni hálfleik og Bubbi varði eins og berserkur. Á sama tíma náðum við að mjatla inn nokkrum mörkum í sókninni og fengum mörk úr hraðaupphlaupum þannig þetta spilaðist eiginlega eins og við vildum," sagði Geir við Vísi eftir leik.

"Við erum rosalega stoltir og ánægðir með þennan varnarleik sem við spiluðum um helgina. Vonandi getum við byggt ofan á þetta og mætt síðan strax ferskir í næsta leik á fimmtudaginn."

Geir var nánast enn í losti eftir sigurinn þegar Vísir ræddi við hann. "Ég er varla búinn að átta mig á þessu enn þá. Ef ég á að lýsa í þessu í einu orði er það alsæla," sagði hann sáttur.

Geir sagði þennan titil gefa Valsliðinu mikið og það hjálpaði til að vinna loksins Haukana aftur sem voru búnir að leggja Valsmenn sex sinnum í röð þar til í gærkvöldi.

"Það var hrikalega sterkt fyrir okkur að vinna Haukana loksins. Við unnum þá reyndar í æfingaleik í janúar en það telur víst ekki. Það er bara frábært að þessi grýla sé loksins farin. Nú vitum við sjálfir að við getum unnið þá ef við spilum okkar leik," sagði Geir, en hvernig verður fagnað í kvöld?

"Ég ætla að fara í nautakjöt og bernaise sósu hjá móður minni sem kom að norðan. Svo á pabbi á afmæli þannig ég fagna aðeins með þeim. Eftir það hitti ég svo strákana og við gerum eflaust eitthvað skemmtilegt saman," sagði Geir Guðmundsson.

Gunnar Andrésson var ánægður með sína stráka í dag.vísir/andri marinó
Gunnar: Þurfti framlag frá fleirum

Gunnar Andrésson, þjálfari Gróttu, var svekktur með tapið í Höllinni í dag. Hann var sérstaklega óánægður með að vera undir í hálfleik, 12-10.

"Við vorum í yfirtölu undir lokin en þeir náðu að skora. Það kláraði þetta," sagði Gunnar um lokamínúturnar.

"Ég er mest svekktur með fyrri hálfleikinn því við vorum betra liðið en þeir voru með tvö mörk í forskot. Við vorum klaufar þar. Þar klúðruðum við of mörgum dauðafærum og vorum of mikið út af þó það hafi stundum verið vafasamir dómar."

"Svona er þetta bara. Ég er hrikalega stoltur af liðinu. Strákarnir lögðu sig 100 prósent fram þannig það er ekki hægt að kvarta yfir því."

Aron Dagur Pálsson var potturinn og pannan í liði Gróttu framan af þó aðrir stigu upp á góðum kafla liðsins í seinni hálfleik.

"Það vantaði aðeins meira framlag frá einum til tveimur leikmönnum. Aron Dagur þurfti að bera þetta á sínum herðum lengi og þá kom kafli þar sem var erfitt fyrir okkur að skora. En við komum til baka og ég er hrikalega ánægður með það," sagði Gunnar Andrésson.

Guðmundur Hólmar brýst í gegn í dag.vísir/andri marinó
Guðmundur Hólmar: Gefur okkur ótrúlega mikið

Guðmundur Hólmar Helgason, fyrirliði Vals, sagði að byrjun Valsliðsins í seinni hálfleik lagði grunninn að sigrinum, en þar komst Valur í 15-10.

"Stemningin var með okkur undir lok fyrri hálfleiks þrátt fyrir að við fengum þar brottrekstur. Þeir skora svo ekki mark fyrstu sjö mínúturnar í seinni og þá náum við fimm marka forskoti sem lagði grunninn að þessu," sagði Guðmundur öskrandi af gleði.

Varnarleikur liðsins var frábær alla helgina, en liðið lagði topplið Hauka í undanúrslitum með frábærum varnarleik.

"Það er búinn að vera einn fókus hjá leikmönnum og þjálfurum og það er hvað við ætluðum að gera í varnarleiknum og markvörslur og hvernig við ætluðum að skila okkur fram. Vörn og markvarsla vinnur þetta. Það er bara gamla góða sagan. Sérstaklega í svona leikjum," sagði Guðmundur Hólmar.

Fyrirliðinn segir sigurinn í dag gefa Valsliðinu ótrúlega mikið og sýnir leikmönnunum hvað þeir geta afrekað.

"Fólk var búið að afskrifa okkur fyrir leikinn á móti Haukum þannig þetta gefur okkur mikla trú. Við vitum að við getum unnið hvern sem er þegar við spilum okkar leik og erum svona góðir," sagði Guðmundur Hólmar Helgason.

Hlynur Morthens með bikarinn í Laugardalshöll í dag.vísir/andri marinó



Fleiri fréttir

Sjá meira


×