Viðskipti innlent

Herferð gegn hvalveiðum Íslendinga ekki hætt

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Hvalveiðar Íslendinga eru umdeildar í meira lagi.
Hvalveiðar Íslendinga eru umdeildar í meira lagi. Vísir/Vilhelm
Forsvarsmenn bandarískrar auglýsingaherferðar til höfuðs íslenskum hvalveiðum segjast ekki ætla að hætta að berjast gegn hvalveiðum Íslendinga þrátt fyrir að Hvalur hf. hyggist ekki veiða neina hvali næsta sumar. Mun herferðin halda áfram þangað til að Íslendingar hætta alfarið hvalveiðum. RÚV greinir frá málinu.

Herferðin nefnist Don't Buy from Icelandic Whalers eða Ekki versla við íslenska hvalveiðimenn. Er markmið hennar að fá verslanir og fyrirtæki til þess að kaupa ekki sjávarfang af íslenskum fyrirtækjum með tengsl við hvalveiðar.

Sjá einnig: Engar hvalveiðar í sumar: „Ef við hefðum vitað hvað var í vændum í Japan hefðum við aldrei byrjað aftur“

Í yfirlýsingu frá samtökunum sem standa að baki herferðinni segir að þau hafi fengið margvísleg fyrirtæki með starfsemi í Bandaríkjunum til þess að lýsa því yfir að þau versli ekki við íslensk fyrirtæki með tengsl við hvalveiðar.

Jafnframt segir að samtökin muni fylgjast með þróun mála varðandi hvalveiðar á Íslandi þrátt fyrir yfirlýsingu Hvals hf. um að það hyggist ekki veiða neina hvali næsta sumar þar sem fyrirtækinu hefur gengið illa að koma hvalaafurðum á markað í Japan.

Sjá einnig: Anonymous réðst á íslenskar vefsíður vegna hvalveiða Íslendinga

Baráttu samtakanna verði haldið til streitu allt þar til að Íslendingar hætti alfarið hvalveiðum og munu samtökin kynna herferðina á stórri ráðstefnu í Boston sem haldin verður um helgina.

Hvalveiðar fyrirtækis Hvals hf., sem er það eina sem stundað hefur hvalveiðar við Íslandsstrendur síðastliðin ár, hafa verið í meira lagi umdeildar. Bandaríkjaforseti hefur gagnrýnt þær, Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra hefur sagt þær skaða ímynd Íslands og erlendir tölvuþrjótar ítrekað gert árásir á íslenskar vefsíður í mótmælaskyni við þær.

Sjá einnig: Ekki hægt að merkja teljandi áhrif vegna hvalveiða

Árið 2014 var Íslandi ekki boðið að taka þátt í hafráðstefnunni Our Ocean, sem utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna stóð fyrir, þrátt fyrir að vera ein stærsta fiskveiðiþjóð í Norður-Atlantshafi og hafi sóst eftir að taka þátt. Var ákvörðun Bandaríkjastjórnar rakin til hvalveiða Íslendinga.

Í vikunni gaf utanríkisráðuneytið út skýrslu um áhrif hvalveiða á samskipti Íslanda og annarra ríkja. Niðurstaða hennar var m.a. að ekki væru unnt að sjá að ákvarðanir Bandaríkjaforseta, í tengslum við hvalveiðar Íslendinga, hafi haft nokkur teljandi áhrif á viðskiptalega hagsmuni eða diplómatísk samskipti ríkjanna.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×