Íslenski boltinn

Davíð Þór vinnur fulla vinnu og æfir eins og atvinnumaður

Stefán Árni Pálsson skrifar
Einn besti leikmaður Pepsi-deildar karla síðustu ár Davíð Þór Viðarsson, fyrirliði FH, lætur sig hafa það að vinna fulla vinnu með boltanum þrátt fyrir að FH-ingar æfi nánast eins og atvinnumenn.

Davíð Þór fór á kostum með FH-ingum í Pepsi-deildinni síðasta sumar hefur sex sinnum fangað Íslandsmeistaratitli með félaginu og einu sinni hefur hann orðið bikarmeistari. Auk þess að æfa með FH-ingum á hverjum degi stundar fyrirliðinn fulla vinnu með fótboltanum.

„Þetta var meira krefjandi fyrst þegar ég kom heim, svona að komast inn í rútínuna,“ segir Davíð Þór í samtali við Guðjón Guðmundsson.

„Maður var kannski í vinnunni frá níu til fjögur og fór síðan á æfingu. Núna í dag er maður kominn meira inn í hlutina, fjölskyldan er komin í meiri og betri rútínu. Maður var vanur að vera bara á æfingu á morgnanna og mættur heim klukkan eitt og hafði allan tímann í heiminum fyrir fjölskylduna.“

Davíð segir að stærsta ástæðan fyrir því að þetta gangi upp sé að hann sé með vinnuveitanda sem sýnir honum mikinn skilning. „Hann er allavega ekki búinn að reka mig ennþá, þó svo að ég sé búinn að vera í burtu ófáar vinnustundirnar. Lífið er ekki alltaf auðvelt og ef ég ætti að fara kvarta yfir því að vera í fínni vinnu og spila fyrir eitt af bestu liðum landsins þá væri bara eitthvað að mér. Þá fyrst mætti fara hrauna yfir mig á Twitter.“

Davíð lék sem atvinnumaður í Belgíu, Noregi, Svíþjóð og Danmörku segir að aðstæður knattspyrnumanna hér á landi hafi gjörbreyst á síðustu árum.

„Það eru fleiri sem eru bara að spila fótbolta og að því leytinu til er þetta orðið líkara því sem við þekkjum á öðrum stöðum erlendis.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×