Íslenski boltinn

KR-ingar unnu en þurfa að treysta á Víkinga í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Óskar Örn Hauksson kom KR í 2-0 í kvöld.
Óskar Örn Hauksson kom KR í 2-0 í kvöld. Vísir/Stefán
KR-ingar kláruðu sitt í Egilshöllinni í kvöld en vita það ekki fyrr en seinna í kvöld hvort þeir komast í átta liða úrslit Lengjubikarsins í fótbolta.

KR-liðið varð að vinna Grindavík og Vesturbæingar unnu 3-0 sigur. KR vann 3 af 5 leikjum sínum í riðlinum og endaði með 10 stig.

Það voru þeir Kennie Knak Chopart og Óskar Örn Hauksson og Pálmi Rafn Pálmason sem skoruðu mörk KR í leiknum, Chopart í fyrri hálfleik, Óskar Örn fimm mínútum fyrir leikslok og Pálmi Rafn í uppbótartíma.

Þetta voru fyrstu mörkin hjá Chopart, Óskari Erni og Pálma Rafni í Lengjubikarnum í ár en Hólmbert Aron Friðjónsson er markahæstur hjá KR-liðinu með fjögur mörk.

Víkingar hafa unnið alla fjóra leiki sína í riðlinum og hafa þegar tryggt sér sigur í riðlinum og um leið sæti í átta liða úrslitunum.

Skagamenn eru með sjö stig en mæta toppliði Víkinga í kvöld. ÍA kemst upp fyrir KR og í átta liða úrslitin með þriggja marka sigri.

KR er með sex mörk í plús og því skipti það miklu máli fyrir Vesturbæjarliðið að skora þessi tvö mörk á lokakaflanum. Þau þýða að Skagamenn þurfa bæði að vinna upp þriggja stiga og þriggja marka forystu KR-inga í leiknum á móti Víkingum.

Leikur Víkings og ÍA verður sýndur beint Stöð 2 Sport 3 en Hörður Magnússon mun lýsa leiknum sem fer fram í Egilshöllinni.

Upplýsingar um markaskorara í KR-leiknum eru fengnar frá úrslitasíðunni úrslit.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×