Handbolti

Formaður HSÍ: Þannig týnist tíminn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ.
Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ. Vísir/Valli
Þegar Geir Sveinsson var kynntur sem nýr landsliðsþjálfari karla í handbolta voru 69 dagar liðnir frá því að Aron Kristjánsson hætti að loknu EM í Póllandi.

Guðmundur sagði að það hefði verið farið vítt og breitt yfir sviðið og rætt við marga aðila, bæði íslenska þjálfara og erlenda. Meðal þeirra sem rætt var við var Ljubomir Vranjes, líkt og Fréttablaðið greindi frá á sínum tíma.

„Það var haft samband við Geir í upphafi,“ sagði Guðmundur. „Við ræddum líka við umboðsmenn og fórum strax að velta fyrir okkur erlendum nöfnum.“

„Eftir það ferli var okkar niðurstaða sú að við þurftum sterkan leiðtoga sem getur hugað að þeirri endurnýjun sem þarf að eiga sér stað í landsliðinu á næstunni. Við vorum að leita að manni sem gæti stýrt þessari vinnu til frambúðar.“

„Vissulega tók þetta lengri tíma en maður ætlaði sér. Við ákváðum að fara rólega af stað og fara breitt yfir sviðið. Síðan þegar maður ætlar að fara að ræða málin nánar þá vill of dragast á svörum. Þannig týnist tíminn, eins og stendur einhversstaðar.“

Guðmundur segist ekki hafa óttast að það væri komið í óefni vegna þess hversu langan tíma ráðningaferlið tók og hversu stutt er í næsta leik en Ísland mætir Noregi ytra á sunnudag.

„Það er bara þannig að þegar maður tekur viðræður eins og þessar þá tekur það tíma. Þetta var niðurstaðan eftir þetta ferli og við teljum ekki að við fórum of seint af stað í viðræður við Geir,“ sagði Guðmundur en fram kom á fundinum að HSÍ hafði fyrst samband við Geir fyrir átján dögum síðan.

„Ég tel ekki að við séum of seinir núna. Ég talaði alltaf um að þessu yrði lokið fyrir 1. apríl og það stendur.“

Blaðamannafundur HSÍ var í beinni útsendingu á Vísi en upptöku má honum má sjá í heild sinni hér að neðan.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×