Íslenski boltinn

Pálmi Rafn handleggsbrotinn: Ef körfuboltamaður er að spila brotinn þá hlýt ég að geta það

Stefán Árni Pálsson skrifar
Pálmi Rafn í leik með KR.
Pálmi Rafn í leik með KR. vísir/pjetur
„Ég braut báðar pípur í hendinni og er að fara í aðgerð á mánudaginn,“ segir Pálmi Rafn Pálmason, leikmaður KR, í samtali við Vísi.

Pálmi lenti í harkalegu samstuði í leik liðsins gegn Fylki í 8-liða úrslitum Lengjubikarsins í gær og vissi leikmaðurinn um leið að hann væri brotin.

„Ég lendi bara mjög illa á hendinni og finn það um leið að hún er brotin. Þetta var mjög sárt og nokkuð ljótt brot. Það var reynt að tosa þetta til en það gekk ekki og því þarf ég að fara í aðgerð,“ segir Pálmi sem var fluttir um leið upp á spítala eftir atvikið.

Sjá einnig: Fylkir fékk færin en KR skoraði | Sjáðu mörkin

„Ég er núna í gifsi og með fatla og býð bara eftir þessari aðgerð á mánudaginn. Upphaflega átti ég að fara í þessa aðgerð strax í dag en þetta er bara svona eins og það er, það er ekki hægt að velja sér stað og stund til að fara í aðgerð.“ 

Pálmi er ekki viss hversu lengi hann verður frá vegna meiðslanna.

„Bæklunarlæknir á eftir að skoða þetta betur en það sem ég hef heyrt er að bein grær á sex vikum. Ég vonast nú til þess að ég verði nú kominn í gang fyrir það. Það eru til fullt af spelkum og einhverju drasli sem hlýtur að vera hægt að nota.“

Pepsi-deildin hefst 1. maí og leikur KR sinn fyrsta leik þann 2. maí.

„Ég er auðvitað ekki með tímann með mér í þessu og því veit ég ekki alveg hvernig þetta verður. Það verður að koma í ljós hvernig þetta grær allt saman. Við erum með körfuboltamann sem er að spila handleggsbrotinn og þá hlýt ég að geta það.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×