Íslenski boltinn

Slæmar fréttir fyrir sumarið hjá KR?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Indriði Sigurðsson, fyrirliði KR.
Indriði Sigurðsson, fyrirliði KR. Vísir/Anton
KR-ingar tryggðu sér sigur í Lengjubikarnum í gærkvöldi með 2-0 sigri á Víkingum í úrslitaleik í Egilshöllinni. KR-ingar hafa aftur á móti aldrei orðið Íslandsmeistarar eftir að þeir unnu deildabikarinn um vorið.

Það er sjálfsögðu alltaf gott að vinna titla þótt að um undirbúningstímabil sé að ræða. Það fylgir hinsvegar sögunni að þessi einstaki titill boðar ekki gott fyrir Vesturbæjarfélagið.

Þetta er í sjötta sinn sem KR verður deildabikarmeistari en félagið vann titilinn einnig 1998, 2001, 2005, 2010 og 2012. Í ekkert þessara skipta fylgdu KR-ingar þessum titli eftir með því að vinna Íslandsmeistaratitilinn seinna sumarið.

Bjarni Guðjónsson, þjálfari KR-liðsins, var fyrirliði liðsins þegar KR vann deildabikarinn  í síðustu tvö skipti eða 2010 og 2012. Óskar Örn Hauksson, sem skoraði bæði mörkin í úrslitleiknum í gær, lagði upp sigurmarkið fyrir fjórum árum og hann átti einnig stoðsendingu í úrslitaleiknum 2010.  

KR-liðið hefur ekki aðeins misst af titlinum á deildabikarmeistaraárum því liðið hefur ekki lent ofar en fjórða sætið á síðustu fjórum sumrum þar sem KR-ingar hafa unnið deildabikarinn.

Besti árangurinn hjá KR á deildabikarmeistaraári var þegar liðið vann keppnina fyrst árið 1998 en KR-ingar enduðu þá í 2. sæti um haustið eftir frábæra seinni umferð.

Það eru annars liðin sjö ár síðan að félag fylgdi sigri í deildabikarnum eftir með Íslandsmeistaratitli en FH-ingar voru síðastir til að ná slíkri tvennu sumarið 2009. FH vann einnig báða þessa titla 2004 og 2006.

ÍA 1996 og ÍBV 1997 eru síðan hin liðin sem hafa náð að verða Íslandsmeistarar og deildabikarmeistarar á sama tímabilinu en þau unnu tvö fyrstu árin sem deildabikarinn fór fram.



KR, deildameistaratitlarnir og Íslandsmótið:

1998

Sigur á Val í úrslitaleik eftir vítakeppni

Íslandsmótið: 2. sæti

2001

Sigur á FH í úrslitaleik eftir vítakeppni

Íslandsmótið: 7. sæti

2005

3-2 sigur á Þrótti í úrslitaleik

Íslandsmótið: 6. sæti

2010

2-1 sigur á Breiðabliki í úrslitaleik

Íslandsmótið: 4. sæti

2012

1-0 sigur á Fram í úrslitaleik

Íslandsmótið: 4. sæti

2016

2-0 sigur á Víkingi í úrslitaleik

Íslandsmótið: ???


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×