„Við vissum að brautin myndi henta okkur vel, við komum með nýjan framvæng og framtrjónu svo við vorum bjartsýn þegar við mættum. Við erum að fá dekkin til að virka afar vel fyrir okkur,“ sagði Rob Smedley yfirmaður frammistöðumála hjá Williams.
„Ég var nokkuð öruggur með minn hring, mistökin kostuðu mig ekki og ég hafði það á tilfinningunni fyrir fram. Það gekk vel í dag en auðvitað auðveldar það mér aðeins keppnina á morgun en Formúlu 1 keppnir eru aldrei auðveldar. Það getur allt gerst á morgun,“ sagði Rosberg eftir tímatökuna.
„Auðvitað hefði ég viljað vera nær Mercedes. Við græddum auðvitað á því sem kom fyrir Lewis [Hamilton]. Óáreiðanleikinn er ekki farinn að angra mig ennþá. Við erum að reyna allt sem við getum til að ná Mercedes. Vonandi fáum við góða keppni á morgun, það getur allt gerst. það er langt til loka heimsmeistaramótsins,“ sagði Sebastian Vettel sem varð annar en ræsir sjöundi á morgun.
„Uppfærslurnar sem við komum með hingað eru að virka vel. Á morgun höfum við frábært tækifæri til að eiga góða keppni,“ sagði Valtteri Bottas sem ræsir annar á Williams bílnum á morgun.

„Við vorum að glíma við undirstýringu í bílnum og við vorum kannski að fara aðeins of varlega núna. Við erum að ná augljósum framförum sem er afar jákvætt og vonandi eigum við góða keppni. Við eigum eftir að þurfa að spara mikið eldsneyti á morgun,“ sagði Jenson Button sem ræsir 12. á morgun í McLaren bílnum.
„Ég er nokkuð sáttur með áttunda sæti. Við þurftum að hefja tímatökuhringinn án þess að hita dekkin fullkomlega upp sem ruglaði aðeins akstrinum. Við erum reiðubúin að berjast á morgun. Það veltur á óvæntum atburðum í keppninni hvort við eigum möguleika á verðlaunasæti,“ sagði heimamaðurinn, Daniil Kvyat sem ræsir áttundi á morgun á Red Bull bílnum.
„Ég er mjög kátur með tímatökuna, í gær átti ég ekki góðar æfingar. Þess vegna veit ég ekki alveg við hverju ég á að búast í keppninni á morgun. Við verðum að bíða og sjá,“ sagði Max Verstappen sem ræsir níundi á morgun á Toro Rosso bílnum.