Tumenov var búinn að vinna fimm bardaga í röð og í 13. sæti á styrkleikalista UFC. Gunnar var dottinn af þeim lista en hann fer á hann aftur núna.
Gunnar náði uppgjafartaki og kláraði bardagann þegar 1.45 mínútur voru eftir af annarri lotu.
Gunnar var frábær frá upphafi bardagans. Stóð lengi með rússneska rotaranum og kom með eldsnögg högg í Rússann. Hann tók hann svo niður í gólfið en náði ekki að klára Tumenov þá. Rússinn komst upp þegar hálf mínúta var eftir.
Gunnar lét kné fylgja kviði í annarri lotu. Náði Rússanum fljótlega aftur í gólfið og lék sér þá að honum þar til Rússinn gafst upp.
Geggjuð frammistaða hjá okkar manni sem er heldur betur kominn aftur í umræðuna í veltivigtinni eftir þennan glæsilega bardaga.
