„Helgin er búin að vera góð, bíllinn góður og stemmingin frábær hér í Rússlandi. Það er betra að halda hraðanum uppi þótt maður sé með góða forystu því annars fer maður að gera mistök,“ sagði Rosberg á verðlaunapallinum. Rosberg náði þrennu, ráspól, hraðasta hring keppninnar og vann keppnina.
„Ég er afar sáttur við árangur dagsins, það er gott að ná í stigin. Ég var viss um að eg gæti unnið þetta en svo kom upp vandamálið með vatnsþrýstinginn og ég þurfti að slaka aðeins á,“ sagði Lewis Hamilton á verðlaunapallinum. Hamilton barðist úr tíunda sæti í annað sæti.
„Þetta var gott í dag, ræsingin var fín og ég komst fram úr Valtteri [Bottas] en svo vantaði okkur hraðann til að verjast honum í endurræsingunni,“ sagði Kimi Raikkonen á verðlaunapallinum. Raikkonen náði í 700. verðlaunasæti Ferrari í Formúlu 1.
„Við erum fegin að klára, það var vandamál á báðum bílum. Vatnsþrýstingurinn í bíl Lewis var ekki í lagi og við fengum skrýtin merki frá vélinni í bíl Nico,“ sagði Toto Wolff, liðsstjóri Mercedes.
Vladimir Putin var ánægður með keppnina, hann þakkaði Rosberg fyrir góðan kappakstur og sagði að það veitti áhorfendum mikla ánægju að fylgjast með keppninni.

„Ég bremsaði en það gerðist lítið, í fyrri árekstrinum. Ég hafði bara ekki tíma til að bregðast við og ég endaði aftan á honum. Ég vil biðjast afsökunar og ég mun læra frá þessu. Það er öruggt að Sebastian [Vettel] er í stöðu til að ráðast á mig núna,“ sagði Daniil Kvyat.
„Við erum ánægð með þetta en auðvitað erum við heppina að það er mikið af fólki ekki að klára. Við áttum ekki nógu góða tímatöku í gær, við vorum að glíma við dekkin. Við munum einbeita okkur að því að bæta tímatökuna,“ sagði Kevin Magnussen sem endaði sjöundi á Renault bílnum.
„Við vorum heppnir með atvikin í beygju tvö. Við fengum nokkur sæti ókeypis. Við ættum að miða að því að ná í stigasæti í öllum keppnum. Við erum að koma að keppnum núna sem henta okkur betur,“ sagði Fernando Alonso sem varð sjötti á McLaren bílnum.
„Já ég hefði þegið 13. sæti í upphafi helgarinnar. Við erum að ná framförum. Við sjáum það á stigunum hans Kevin að við getum náð í stig,“ sagði Jolyon Palmer sem varð 13. á Renault.