„Það var ótrúlega gaman að þetta fór svona. Ég var búinn að biðja fyrir þessu og þetta gerðist. Skilaboð dagsins eru að gefast aldrei upp. Ég vil óska Sergio [Perez] og Daniel [Ricciardo] til hamingju með frábæran akstur um helgina. Þeir mega vera stoltir,“ sagði hæstánægður Hamilton á verðlaunapallinum.
„Við hefðum ekki átt að hleypa svona mikilli spennu í þetta. Þetta eru tvær keppnir í röð sem þjónustuhléin bregðast. Ég hef enga útskýringu á því hvers vegna dekkin voru ekki komin í pit-boxið. Ég var kallaður inn, þetta var ekki mín ákvörðun svo liðið hefði átt að vera tilbúið“ sagði niðurlútur Ricciardo á verðlaunapallinum.
„Það er frábært að ná verðlaunapalli í Mónakó í þessum aðstæðum. Ég vil tileinka Vijay Mallya þessi verðlaun. Hann er búinn að sína ótrúlegan styrk og stuðning þrátt fyrir allt sem hann er að ganga í gegnum,“ sagði Sergio Perez á verðlaunapallinum. Hann vísaði til þeirra lögfræðilegu vandræða sem Mallya hefur verið að glíma við undanfarið.
„Þetta voru mannleg mistök. Við munum rannsaka ástæður þeirra í þaula. Eina sem ég get gert núna er að biðja Daniel [Ricciardo] afsökunar,“ sagði Dr. Helmut Marko yfirmaður ökumannsmála hjá Red Bull um þjónustuhléið sem kostaði Ricciardo sigur í keppninni.

„Ég er hissa á þessari hegðun bílsins. Við vorum að glíma við umferð og vandræði í þjónustuhléum. Ég var langt frá því að halda uppi sama hraða og Lewis og því var ákvörðunin einföld á þessu augnabliki. Það hefur alltaf verið regla hjá okkur ef annar er hægari þá hleypir hann hinum fram úr,“ sagði Nico Rosberg sem var vonsvikinn með dagsverkið.
„Við höfðum í alvörunni trú á því að við værum í góðum málum hér um helgina. Við hefðum meira að segja átt að geta betur með Nico [Hulkenberg]. Ég hef trú á að við höldum í Sergio [Perez] eftir tímabilið,“ sagði Bob Fernley, keppnisstjóri Force India.
„Það er alltaf gott að ná góðri keppni. Þessi var skemmtileg. Við fáum aukið sjálfstraust eftir svona árangur og við höfum trú á að við séum á réttri leið, en þessi braut er auðvitað einstök svo það er ekki hægt að lesa of mikið í þessa niðurstöðu,“ sagði Fernando Alonso sem varð fimmti í dag á McLaren bílnum.