Íslenski boltinn

Hermann nánast orðlaus: Þetta var miklu verra en blaut tuska

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Hermann átti nánast engin orð að leik loknum, slíkt var svekkelsið.
Hermann átti nánast engin orð að leik loknum, slíkt var svekkelsið. vísir/valli
Það var nánast orðlaus Hermann Hreiðarsson sem ræddi við blaðamenn að loknum leik Fylkis og Fjölnis í Pepsi-deild karla í kvöld en Fjölnismenn skoruðu jöfnunarmark á síðustu sekúndum uppbótartíma. Þeir sem þekkja Eyjamanninn vita að það gerist ekki oft að hann skorti orð.

„Þetta var miklu, miklu meira en einhver blaut tuska. Blaut tuska hefði verið fín miðað við þetta,“ sagði Hermann. Fylkismenn lentu undir í upphafi leiksins en voru eftir það sterkari aðilinn og hefðu í raun átt að gera út um hann.

„Við höfum fundið góðan takt í síðustu þremur leikjum. Það hafa verið flottir leikir þar sem við höfum verið betri aðilinn, liðið vel, verið flottir út á velli og haft gaman af þessu. Það hélt áfram í dag. Við börðumst fyrir hvorn annan og spiluðum sem lið.“

Hefðu lærisveinar Hermanns haldið út nokkrum sekúndum lengur hefðu þeir landað fyrsta sigri sumarsins en það gekk ekki í dag. „Þetta er eitthvað á móti manni. Við fengum það mörg færi að við eigum að vera löngu búnir að ganga frá þessum leik. Ég hreinlega veit ekki hvernig ég á að haga mér.“

Tæplega 1300 áhorfendur mættu á Floridana-völlinn í sólskinið sem boðið var upp á í kvöld. „Maður verður að hrósa stuðningsmönnunum. Við höfum ekki unnið fyrir því í fyrstu tveimur heimaleikjunum. Við sýndum og sönnuðum það í dag að það er hrikalegt hjarta í þessu liði, geta, liðsheild og barátta. Það voru helvítis læti í okkur allan tímann og þetta var stórskemmtilegur leikur á að horfa,“ sagði Hermann afar svekktur að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×