Íslenski boltinn

Ólafur: Varamennirnir komu sterkir inn

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Ólafur Jóhannesson vildi ekki gera mikið úr hálfleiksræðu sem breytti leiknum þegar Valur vann Víking 3-2 eftir framlengdan leik í Borgunarbikarnum í kvöld.

„Það var ekkert merkilegt. Við byrjuðum leikinn mjög illa og spiluðum fyrri hálfleikinn mjög illa. Í hálfleik fórum við yfir hvað við þurftum að laga og við löguðum einföldustu grunn atriði og skiptum aðeins inn á sem breytti miklu,“ sagði Ólafur.

„Varamennirnir komu sterkir inn á. Við erum með ágætlega breiðan hóp sem hjálpar okkur í þessu. Sérstaklega í svona álagi.“

Valur á titil að verja en hefur þurft að sækja Pepsí deildarlið heim í báðum umferðum sínum í bikarnum til þessa.

„Að sjálfsögðu fer um mann að lenda svona undir snemma leiks en ég sagði í hálfleik að það væri þó einn jákvæður hluti í leiknum, að það væri einn hálfleikur eftir og menn hefðu enn tíma til að girða sig í brók og laga leikinn og við gerðum það,“ sagði Ólafur

Valur var manni fleiri í rúman klukkutíma og þurfti hann allan til að ná sigurmarkinu sem kom á lokamínútu framlengingarinnar.

„Hvað hefur það oft gerst í fótbolta að lið missi mann útaf og þá höldum við að leikurinn verði þægilegur og auðveldur og missum það niður. Ég var meðvitaður um að það gæti gerst og bað menn um að vera varkára.

„Ég held að það hafi aðalega verið það að við vorum manni fleiri að við áttum meira eftir en þeir í lokin. Ég held að það hafi skilað sér í framlengingunni,“ sagði Ólafur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×