Red Bull valdi að færa fyrrum liðsfélaga Sainz, Max Verstappen upp til móðurliðsins, Red Bull. Daniil Kvyat var færður aftur til dótturliðsins, Toro Rosso til að búa til pláss fyrir ungstirnið Verstappen hjá Red Bull.
Sainz hefur ekið vel í keppnum ársins, hann hefur verið óheppinn með bilanir en er sem stendur í 14. sæti heimsmeistarakeppni ökumanna með 18 stig, á pari við Fernando Alonso samlanda sinn og fyrrum heimsmeistara. Alonso var mikil fyrirmynd Sainz á yngri árum.
„Já við ákváðum að nýta okkur ákvæði í samningi Sainz til að tryggja að hann verði innan Red Bull fjölskyldunnar næstu 12 mánuði,“ sagði Horner.
„Eins og allir ökumenn Red Bull fjölskyldunnar er hann á mála hjá okkur og við veljum svo hvar hann keyrir. Hann er auðvitað núna hjá Toro Rosso og hann verður þar á næsta ári,“ bætti Horner við.
Horner sagði að frestur til að nýta framlengingarákvæðið hefði verið út árið en liðið hafi viljað veita Sainz hugarró. Eins hefur líklega vakað fyrir Red Bull að halda í ökumanninn sem er ungur og efnilegur.
„Ég tel hann enn vera að þróast sem ökumann. Það er hægt að sjá á honum að hann er að fóta sig betur. Auk þess er enginn augljóslega farinn að þrýsta á að stela af honum sætinu,“ sagði Horner að lokum.
Austurríski kappaksturinn fer fram um helgina á Red Bull brautinni.
Hér fyrir neðan má sjá yfirlit yfir feril Carlos Sainz.