Viðskipti erlent

Toyota innkallar 3,4 milljónir bíla

Sæunn Gísladóttir skrifar
Loftpúða og útblástursgalla var að finna í Toyota Prius.
Loftpúða og útblástursgalla var að finna í Toyota Prius. Fréttablaðið/Valgarður
Japanski bílaframleiðandinn Toyota hefur innkallað 3,37 milljónir bíla úti um allan heim vegna loftpúða- og útblástursgalla.

Forsvarsmenn Toyota tilkynntu í gær að 2,87 milljónir bíla yrðu innkallaðar vegna mögulegs galla í stjórnkerfi útblásturs. Á þriðjudaginn hefði fyrirtækið hins vegar tilkynnt um innköllun 1,43 milljóna bíla vegna loftpúðagalla.

Nokkur Prius-módel Toyota eiga við báða gallana að stríða og því verða samtals 3,37 milljónir bíla innkallaðar. Í tilkynningu kemur fram að engin slys hafi orðið vegna gallanna.

Útblástursgallar eru í bílategundum sem framleiddar voru á árunum 2006 til 2015, meðal annars Prius, Auris og Corolla. Loftpúðagallann er að finna í Prius og Lexus CT200h sem framleiddar voru frá 2010 til 2012.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 30. júní 2016






Fleiri fréttir

Sjá meira


×