Flokkurinn birtir mynd af Aroni Einari við hlið myndar af leikmönnum franska karlalandsliðsins í knattspyrnu. Skilaboð flokksins eru rasísk en myndin á að höfða til fólks sem óttast að „Evrópa og Danmörk séu að breytast í afrískan bakgarð.“
Í tilkynningu frá KSÍ segir að sambandið muni fara fram á að myndin verði fjarlægð og dreifingu hennar hætt. Þá hvetur hún almenning til að tilkynna birtingu hennar til Facebook í þeirri von að takmarka dreifingu hennar.
„Í miðri þeirri gleði og stolti sem ríkir eftir frábæran árangur landsliðsins okkar á EM er ömurlegt að rekast á misnotkun af því tagi sem danski þjóðernisflokkurinn Danskernes Parti hefur gripið til, en í auglýsingu frá flokknum er (að sjálfsögðu í fullkomnu leyfisleysi) birt mynd af fyrirliðanum Aroni Einari með íslenska liðið á bak við sig annarsvegar og nokkrum liðsmönnum þess franska hinsvegar, með dylgjum um að franska liðið sé í raun afrískt lið sem ekki eigi heima í Evrópu.“
Að neðan má sjá umrædda mynd en fjölmargir Íslendingar hafa lýst yfir óánægju sinni með notkun myndarinnar í ummælaþræði með myndinni.